Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2004 Forsætisráðuneytið

Skattabreytingar

Sameiginleg fréttatilkynning frá forsætis- og fjármálaráðherra:

Lækkun tekjuskatts, afnám eignarskatts og stórfelld hækkun barnabóta

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp sem felur í sér 4% lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnám eignarskatts á einstaklinga og fyrirtæki og tæplega helmings hækkun barnabóta. Þessi ákvörðun er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar komi til framkvæmda í áföngum á árunum 2005-2007. Með hliðsjón af horfum í efnahagsmálum og tímasetningu stóriðjuframkvæmda er jafnframt miðað við að meginþungi tekjuskattslækkunarinnar komi til framkvæmda á árinu 2007. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum er mikilvæg forsenda þessara aðgerða enda brýnt að varðveita efnahagslegan stöðugleika.

Árið 2005 kemur fyrsti áfangi lækkunar tekjuskatts einstaklinga til framkvæmda og verður skatthlutfallið þá lækkað um 1%, úr 25,75% í 24,75%. Ennfremur hækka allar viðmiðunarfjárhæðir tekjuskatts, eignarskatts og barnabóta um 3%.

Árið 2006 tekur annar áfangi tekjuskattslækkunar gildi og þá lækkar skatthlutfallið aftur um 1%, í 23,75%. Ennfremur kemur til framkvæmda fyrri áfangi hækkunar barnabóta sem felur í sér 25% hækkun tekjuskerðingarmarka og ótekjutengdra barnabóta og 10% hækkun tekjutengdra bóta. Þá er gert ráð fyrir að eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja verði felldir niður frá og með árinu 2005 sem kemur til framkvæmda við álagningu 2006.

Árið 2007 kemur lokaáfangi tekjuskattslækkunar og sá stærsti til framkvæmda þegar skatthlutfallið verður lækkað um 2%, í 21,75%. Þá kemur einnig til framkvæmda síðari áfangi hækkunar barnabóta sem felur í sér 20% hækkun tekjuskerðingarmarka og ótekjutengdra barnabóta og 1% lækkun tekjuskerðingarhlutfalls, úr 3% í 2% með fyrsta barni, úr 7% í 6% með öðru barni og úr 9% í 8% með þriðja barni og umfram það.

Óhætt er að fullyrða að þessar breytingar leiði til umtalsverðs kaupmáttarauka heimilanna í landinu. Auk 4% lækkunar tekjuskatts er gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um 8% þannig að samanlagt felur þetta í sér 20% hækkun skattleysismarka á tímabilinu, úr 71.270 kr. á þessu ári í 85.836 árið 2007.

Með 4% lækkun tekjuskatts er stigið stórt skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins sem í senn lækkar skattbyrði heimilanna verulega og stuðlar að aukinni atvinnuþátttöku og auknu vinnuframboði. Mikil hækkun barnabóta mun auk þess koma öllum barnafjölskyldum til góða, mest hinum tekjulægri. Auk þess er með lækkun skerðingarhlutfalla dregið úr jaðaráhrifum barnabótakerfisins. Loks mun afnám eignarskatts koma sér vel fyrir íbúðaeigendur, ekki síst eldra fólk og ellilífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og greiða þarf af leiðandi tiltölulega háa eignarskatta.

Heildaráhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru metin til rúmlega 22 milljarða króna að teknu tilliti til veltuáhrifa sem einkum falla til á árunum 2006 og 2007.

Sem dæmi um áhrif þessara aðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með 1 barn undir 7 ára aldri og 125.000 króna tekjur á mánuði hækka um 12.500 krónur á mánuði, eða 10%. Ráðstöfunartekjur hjóna með 300.000 króna tekjur á mánuði samanlagt og 2 börn, annað yngra en 7 ára, hækka um 23.500 krónur, eða 9½%. Til samanburðar má nefna að heildaráhrif aðgerðanna leiða til 4½% hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu. Þetta sýnir vel tekjujöfnunaráhrif aðgerðanna.

Á meðfylgjandi myndum má sjá áhrif aðgerðanna fyrir mismunandi fjölskyldugerðir og tekjur. Jafnframt er sýndur fjöldi framteljenda á hverju tekjubili. Þar kemur fram að ráðstöfunartekjur hjóna með 1-2 börn hækka um 6-8% í kjölfar lækkunar tekjuskatts og hækkunar barnabóta. Ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra hækka heldur meira, eða á bilinu 6-10%.


Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á hjón með 2 börn eldri en 7 ára

Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á hjón með 1 barn yngra en 7 ára
Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á hjón með 1 barn eldra en 7 ára

Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á hjón með 1 barn yngra en 7 ára og 1 eldra en 7 ára

Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á einstæða foreldra með 1 barn eldra en 7 ára

Graf sem sýnir áhrif skattabreytinga 2004 á einstæða foreldra með 1 barn yngra en 7 ára

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum