Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2003 Forsætisráðuneytið

Samningur forsætisráðuneytisins við Vesturfarasetrið á Hofsósi

4. febrúar 2003

Forsætisráðuneytið og Vesturfarasetrið ses. á Hofsósi
gera með sér svofelldan samningum þjónustu á sviði
menningartengsla milli Íslendinga og fólks af íslenskum
ættum sem búsett er í Norður Ameríku

1. gr.
Vesturfarasetrið ses. á Hofsósi tekur að sér að veita upplýsingar til Vestur-Íslendinga um rætur þeirra hér á landi, menningarlega og félagslega arfleifð, íslenska ættingja, sögu og búferla-flutninga til Vesturheims. Vesturfarasetrið ses. veitir Íslendingum upplýsingar um þá sem fluttust til Vesturheims, afkomendur þeirra og sögu.

2. gr.
Vesturfarasetrið ses. skal byggja upp nauðsynlegan aðgengilegan gagnagrunn og safna þeim gögnum, ritum og bókum sem þarf til þess að geta veitt almennar upplýsingar um sögu Vestur Íslendinga og afkomenda þeirra auk upplýsinga um afdrif þeirra eins og við verður komið.

3. gr.
Fyrir þá þjónustu og starfsumfang sem fram kemur í 1. - 3. gr. greiðir forsætisráðuneytið kr. 10.000.000 (tíu milljónir króna) árlega framlag af fjárlögum 2003 til og með árinu 2006. Vegna ársins 2002 greiðir ráðuneytið kr. 5.000.000 (fimm milljónir króna) en miðað er við að þjónustan hefjist á því ári með helmingi starfsumfangs.

4. gr.
Vesturfarasetrið ses. skal m.a. ráðstafa styrknum til að kosta tvo starfsmenn sem vinna að gagnasöfnun og upplýsingagjöf. Ennfremur sér setrið um alla starfsaðstöðu fyrir þessa starfsmenn.

5. gr.
Vesturfarasetrið gerir ráðuneytinu fyrir 1. október ár hvert grein fyrir framgangi þjónustunnar og hefur ráðuneytið þá frest til 1. nóvember til þess að gera athugasemdir við vinnu setursins. Geri ráðuneytið ekki athugasemdir skal litið svo á að greiðslur næsta árs verði greiddar í samræmi við ákvæði 4. gr. Nú gerir ráðuneytið athugasemdir og skal þá leitað leiða til að ná samkomulagi um framkvæmd þjónustunnar en takist það ekki getur ráðuneytið sagt upp samningnum með 6 mánaða fyrirvara og falla þá greiðslur niður miðað við þann tíma þegar samningurinn fellur úr gildi.

6. gr.
Á fyrri hluta árs 2006 skulu aðilar samningsins hefja viðræður um framhald þjónustunnar.

Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum til vörslu hjá hvorum samningsaðila um sig



Í Þjóðmenningarhúsinu, 4. febrúar 2003

Davíð Oddsson, forsætisráðherra



F.h. Vesturfarasetursins á Hofsósi

Valgeir Þorvaldsson


Samningur forsætisráðuneytisins og Vesturfarasetursins (doc - 21kb)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum