Hoppa yfir valmynd
20. desember 2004 Forsætisráðuneytið

Skjaldarmerki Íslands - Reglubók og vefsíður

Forsætisráðuneytið hefur gefið út nýja reglubók um skjaldarmerki Íslands ásamt því að endurbæta vefsíður um skjaldarmerkið. Reglubókinni og vefsíðunum er ætlað að vera til leiðbeiningar um rétta notkun skjaldarmerkisins. Samkvæmt 12. gr. a. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, er skjaldarmerki Íslands auðkenni stjórnvalda ríkisins og notkun ríkisskjaldarmerkisins er þeim einum heimil.

Forsætisráðuneytið hefur farið þess á leit við ráðuneytin og ríkisstofnanir með bréfi dags. 17. desember 2004, að þau sjái til þess að hið hreinteiknaða skjaldarmerki sé notað við allar útgáfur þar sem skjaldarmerki Íslands er sett á rit. Auk þess er farið fram á að virtar séu reglur um bakgrunn og grunnflöt fyrir skjaldarmerkið. Ennfremur er þess óskað að hið hreinteiknaða skjaldarmerki verði notað á öll pappírsföng, skilti og aðrar merkingar hið fyrsta og eigi síðar en í ársbyrjun 2006. Þetta á jafnframt við um aðra notkun skjaldarmerkisins.

Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, fer forsætisráðuneytið með forræði í málum er varða ríkisskjaldarmerkið. Til að mæta kröfum um notkun skjaldarmerkisins í nútímaprent- og skjámiðlum var grafíska hönnuðinum, Ólöfu Árnadóttur, og myndlistarmanninum, Pétri Halldórssyni, auglýsingastofunni P & Ó falið að hreinteikna og stílfæra skjaldarmerkið. Gætt var í hvívetna að varðveita upprunalega teikningu Tryggva Magnússonar.

Hér á vef Stjórnarráðsins er unnt að fræðast um sögu skjaldarmerkisins, gildandi lög og reglur og leiðbeiningar um notkun þess. Þar má einnig nálgast 20 mismunandi útfærslur af skjaldarmerkinu fyrir prent- og skjámiðla. Með þessu aukna aðgengi á rafrænu formi er tryggt að hönnuðir, prentsmiðjur og aðrir sem vinna að útgáfum fyrir ráðuneytin og ríkisstofnanir séu ávallt með rétta útgáfu af skjaldarmerki Íslands.

Reglubókin er fyrst og fremst til notkunar innan Stjórnarráðsins. Í bókinni er að finna sama efni og á vefsíðunum ásamt upplýsingar um staðsetningu skjaldarmerkisins á pappírsföngum, uppsetningu á skrift ráðuneytanna og bréfsefna, auk ýmissa eyðublaða og forma í skjalavistunarkerfum ráðuneytanna.

Í Reykjavík, 20. desember 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum