Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2003 Forsætisráðuneytið

Af fyrsta fundi Vísinda- og tækniráðs

Frétt nr.: 5/2003

Fyrsti fundur Vísinda- og tækniráðs

Í dag boðaði Davíð Oddsson forsætisráðherra til fyrsta fundar nýskipaðs Vísinda- og tækniráðs. Auk hans eiga þrír aðrir ráðherrar fast sæti í ráðinu, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Þá sitja í ráðinu 14 fulltrúar vísindasamfélagsins, atvinnulífs og annarra ráðuneyta. Fjórir eru tilnefndir af Samstarfsnefnd háskólastigsins, tveir af Alþýðusambandi Íslands, tveir af Samtökum atvinnulífsins og sex einstaklingar eru tilnefndir af eftirtöldum ráðherrum: menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra.

Vísinda- og tækniráð var stofnað með lögum nr. 2/2003 snemma á þessu ári. Tilgangurinn með þessari breytingu á yfirstjórn vísinda- og tæknimála er einkum sá að efla forsendur opinberrar stefnumörkunar á sviði vísinda og tækni og samræma aðgerðir opinberra aðila á þessum vettvangi. Jafnframt endurspeglar þessi breyting þann vilja stjórnvalda að stefna í vísindum, rannsóknum og þróun setji ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum.

Vísinda- og tækniráð er nýjung hér á landi. Vægi málaflokksins er í lögum þessum aukið frá því sem verið hefur með því að forsætisráðherra og þrír ráðherrar taka sæti í ráðinu. Milli funda starfar ráðið í tveimur nefndum, vísindanefnd, sem heyrir undir menntamálaráðneytið og tækninefnd, sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Gert er ráð fyrir að nefndirnar hafi með sér náið samráð. Hefur menntamálaráðherra stofnað nýja skrifstofu vísindamála, sem m.a. hefur það hlutverk að þjónusta hið nýja ráð.

Á fyrsta fundi ráðsins fjallaði forsætisráðherra m.a. um eflingu sjóða sem veita styrki til rannsókna- og þróunarstarfsemi, mikilvægi nýsköpunarfyrirtækja fyrir íslenskt samfélag, samstarf háskóla og fyrirtækja og nauðsyn þess að endurskoða skipulag opinberra rannsóknastofnana. Einnig kom fram hjá forsætisráðherra að fjárhagsleg stefnumörkun stjórnvalda fyrir sjóðina til næstu þriggja ára verði lögð fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004. Menntamálaráðherra lagði áherslu á mikilvægi rannsóknamenntunar, alþjóðasamstarfs og þess að Ísland verði áfram í hópi þeirra þjóða sem verja mestu fé til rannsókna og þróunarstarfs. Iðnaðarráðherra fjallaði um hið mikilvæga samspil vísindarannsókna og nýsköpunar atvinnulífsins og að endurskoða þurfi opinberan stuðning við nýsköpun og atvinnuþróun þannig að hann taki mið af framförum í vísindum og tækni.

Næsti fundur ráðsins verður haldinn í haust en þangað til munu vísindanefnd og tækninefnd vinna að heildstæðri vísinda- og tæknistefnu sem ráðið mun taka til umfjöllunar á fundinum.

Ávarp forsætisráðherra á stofnfundi Vísinda- og tækniráðs.

Í Reykjavík, 8.apríl 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum