Hoppa yfir valmynd
1. mars 2005 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ræðir við Anders Fogh Rasmussen

Mynd: Anders Fogh Rasmussen og Halldór Ásgrímsson
Halldor_Anders_Fogh

Evrópumálin, norrænt samstarf og varnar- og öryggismál báru hæst á fundi Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra sem fram fór í Kristjánsborgarhöll í dag.

Opinber heimsókn forsætisráðherra í Danmörku hófst í morgun með fundi ráðherra og Christians Mejdahl, forseta danska þingsins. Þar var farið yfir nýafstaðnar kosningar í Danmörku og brýnustu mál í dönskum stjórnmálum sem framundan eru.

Að þeim fundi loknum hitti forsætisráðherra utanríkismálanefnd danska þingsins. Þar var mest rætt um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og líkur á aðild Íslands í nánustu framtíð, auk sjávarútvegsmála.

Í hádeginu skoðaði forsætisráðherra svo FIH bankann sem er í eigu KB Banka og flutti þar erindi fyrir tæplega 100 gesti um þær breytingar sem átt hafa sér stað í íslensku þjóðfélagi á síðustu árum, fjárfestingarkostum og viðskiptatækifærum og svaraði því næst spurningum gesta.

Þá var komið að fundi forsætisráðherranna tveggja í Kristjánsborgarhöll. Sem fyrr sagði voru Evrópumálin fyrirferðarmikil á fundinum, auk þess sem norrænt samstarf og öryggis- og varnarmál voru rædd.

Anders Fogh Rasmussen bauð svo til móttöku á Norðurbryggju undir kvöld og hélt svo kvöldverðarboð til heiðurs Halldóri Ásgrímssyni á hinum norræna veitingastað Noma.

Í fyrramálið munu forsætisráðherrarnir hittast að nýju og ræða málin, áður en farið er á íslenska listasýningu. Því næst heldur forsætisráðherra til Álaborgar þar sem hann heimsækir fyrirtæki í íslenskri eigu og ávarpar viðskiptaráð Álaborgar.

Heimsókninni lýkur annað kvöld.

Kaupmannahöfn 1. mars 2005

Mynd: Frá fundi Halldórs Ásgrímssonar og Anders Fogh í Danmörku

Frá fundi forsætisráðherranna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum