Hoppa yfir valmynd
9. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Norðmenn hljóta tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2005

Norska kammersveitin Cikada hlýtur Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2005. Ellefu norrænar kammersveitir voru tilnefndar í ár en í umsögn dómnefndar segir:

„Með markvissu starfi í áraraðir er Cikada mikilvægur fulltrúi norrænnar nútímatónlistar. Dómnefndin leggur áherslu á sérstakt tjáningarform sveitarinnar, lifandi flutning og nýskapandi viðhorf gagnvart stílrænni fjölbreytni. Með óbilandi trú sinni og áherslu á gæði á öllum sviðum tekst Cikada að vekja athygli á mikilvægi nútímatónlistar fyrir norrænan sjálfsskilning okkar.“

Hróður Cikada nær langt út fyrir landsteina Noregs fyrir flutning á norrænni og alþjóðlegri nútímatónlist.

Meðal norrænna tónskálda sem Cikada hefur unnið með má nefna Rolf Wallin, Arne Nordheim, Cecilie Ore, Kaija Saariaho, Anders Nilsson og Magnus Lindberg. Á verkefnaskrá sveitarinnar eru einnig verk eftir Iannis Xenakis, Luigi Nono, Morton Feldman og John Cage.
Cikada hóf feril sinn árið 1989 og starfa nú með sveitinni níu hljóðfæraleikarar undir stjórn Christian Eggen. Í Cikada starfa þrír hópar sem eru í senn innbyrðis tengdir og sjálfstætt starfandi: Cikada Ensemble, Cikada Strengjakvartett og Cikada Dúó. Sameiginlegt markmið þeirra er bæði að leggja sitt af mörkum fyrir nýsamda tónlist og flétta rafræna tónlist inn í verkefnaskrá sína.
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 danskra króna og verða þau afhent í tengslum við Norðurlandaráðsþing sem haldið verður í Reykjavík í lok október.


Nánari upplýsingar um tónlistarverðlaunin:
http://www.norden.org/nr/pris/mus_pris/is/index.asp?lang=5
http://www.norden.org/nr/pris/mus_pris/2005/sk/index.asp?lang=2

NOMUS: http://www.nomus.org



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum