Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2005 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra með Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, átti í dag fund í Tókýó með Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans. Á fundinum ræddu ráðherrarnir málefni Sameinuðu þjóðanna, m.a. stuðning Íslands við tillögu Japans og fleiri ríkja um fjölgun sæta í öryggisráði S.þ. Einnig voru ýmis tvíhliða mál tekin upp og ítrekaði Halldór Ásgrímsson mikilvægi þess að ljúka við tvísköttunarsamning milli ríkjanna í því skyni að efla áhuga á gagnkvæmum fjárfestingum. Nokkuð var rætt um viðskipti ríkjanna og hvernig mætti auka þau. Í því samhengi ræddu ráðherrarnir leiðir til að liðka fyrir gerð loftferðarsamnings. Ennfremur viðraði Halldór Ásgrímsson hugmyndir um gerð fríverslunarsamnings milli ríkjanna. Orkumál bar og á góma og samstarf ríkjanna í hvalveiðimálum. Undirstrikaði forsætisráðherra mikilvægi Japansmarkaðar fyrir áframhaldandi hvalveiðar í vísindaskyni við Ísland. Að lokum minntist forsætisráðherra á að á næsta ári væru 50 ár liðin frá því að ríkin tóku upp stjórnmálasamband. Kvað hann við hæfi að minnast þessa merka áfanga og bauð Koizumi að sækja Ísland heim af því tilefni.

Að loknum fundi hélt forsætisráðherra erindi um efnahagsmál á Íslandi á hádegisfundi í sendiráði Íslands sem fulltrúar úr japönsku atvinnulífi, stjórnmálum, hagsmunasamtökum og fjölmiðlum sóttu. Þá átti hann fund með varaformanni Nippon Keidanren, sem eru sterkustu hagsmunasamtök vinnuveitenda í Japan. Á fundinum voru viðskipti ríkjanna rædd, fjárfestingar, orkumál og gerð fríverslunarsamninga.

Í kvöld snæða forsætisráðherrahjónin kvöldverð í boði stjórnar Íslenska verslunarráðsins í Japan.

Í Reykjavík, 11. júlí 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum