Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2005 Forsætisráðuneytið

Opnun tilboða í hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf.

Undanfarna mánuði hefur framkvæmdanefnd um einkavæðingu unnið að sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. (Símanum) og, í samræmi við verk- og tímaáætlanir nefndarinnar, verða bindandi tilboð í hlut ríkisins í félaginu opnuð fimmtudaginn 28. júlí 2005, kl.13.00 á Hótel Nordica.

Til að tryggja algert gagnsæi mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu opna tilboðin í viðurvist allra bjóðenda. Ennfremur er fjölmiðlum hér með boðið að vera viðstaddir opnunina. Fulltrúar fjölmiðla skulu hafa meðferðis skilríki og gæta stundvísi, en engum fjölmiðlum verður veittur aðgangur að opnuninni eftir kl. 13.00.

Verði 5% eða minni verðmunur á tilboðum hæstu bjóðenda verður viðkomandi aðilum gefinn kostur á að skila inn nýju og hærra verðtilboði síðar um daginn, einnig í viðurvist bjóðenda og fjölmiðla. Þegar niðurstaða liggur fyrir mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu boða til fréttamannafundar á sama stað. Ekki verður gefinn kostur á spurningum eða viðtölum fyrr en á fréttamannafundinum.

Hér að neðan fylgir ágrip af söluferli Landssíma Íslands hf.:

Yfirstandandi söluferli á hlut ríkisins í Símanum hófst í byrjun árs 2004 með gerð áreiðanleikakönnunar og verðmats á fyrirtækinu. Í lok ársins, að undangengnu útboði þar sem 14 tilboð bárust, var gengið til samninga við fjármála- og ráðgjafarfyrirtækið Morgan Stanley í Lundúnum um ráðgjöf varðandi söluna.

Þann 4. apríl 2005 kynnti framkvæmdanefnd um einkavæðingu fyrirkomulag sölu á hlut ríkisins í Símanum, og lagði nefndin til að allur hluturinn yrði seldur í einu lagi einum hópi kjölfestufjárfesta. Var sú tilhögun í samræmi við tillögu Morgan Stanley. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta var hins vegar háð ákveðnum skilyrðum, m.a. að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignaðist stærri hlut í Símanum en 45% fram að skráningu félagsins á Aðallista í Kauphöll, og að ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins yrði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups, í síðasta lagi fyrir árslok 2007.

Gert var ráð fyrir tvíþættu söluferli. Í fyrstu, þann 17. maí s.l., skiluðu bjóðendur, á grundvelli fyrirliggjandi útboðsgagna, inn óbindandi tilboðum. Við mat á óbindandi tilboðum var meðal annars horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, starfsmannastefnu og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, svo og sjónarmiða bjóðenda hvað varðar markmið ríkisins með sölunni. Alls bárust 14 óbindandi tilboð í hlutabréf ríkisins í Símann og að baki tilboðanna stóðu 37 fjárfestar, innlendir og erlendir.

Alls uppfylltu 12 aðilar, sem að stóðu 35 innlendir og erlendir fjárfestar, skilyrði nefndarinnar og var boðið til þátttöku á síðara stigi söluferlis. Hefur þeim verið gert kleift að fá frekari upplýsingar um Símann í gegnum kynningar, heimsóknir og áreiðanleikakannanir og, á grundvelli þessara athugana, gera bindandi tilboð. Þá hefur kaupsamningur verið unninn jafnhliða í söluferlinu og liggur hann nú fyrir áður en bindandi tilboð verða lögð fram. Söluferlið gerir ekki ráð fyrir frekari samningsviðræðum.

Frá upphafi hefur söluferlið gert ráð fyrir að við mat á bindandi kauptilboðum yrði aðeins litið til verðs og hæsta gilda tilboði tekið. Einnig gerir söluferlið ráð fyrir því að ef 5% eða minni verðmunur er á tilboðum hæstu bjóðenda verði viðkomandi aðilum gefinn kostur á að skila inn nýju og hærra verðtilboði síðar um daginn. Til að tryggja algert gagnsæi mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu, sem fyrr greinir, opna tilboðin í viðurvist allra bjóðenda og fjölmiðla.

 

                                                                                                   Reykjavík, 26. júlí 2005
                                                                                                   Framkvæmdanefnd um einkavæðingu



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum