Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kynnti í dag frumvarp sem forsætisráðuneytið hefur haft forgöngu um að semja um réttarstöðu samkynhneigðra. Ráðuneytið hafði í málinu náið samráð við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Hagstofuna að því er varðar Þjóðskrá.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

  • Rýmkuð verða skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar þannig að ekki verði lengur krafist fastrar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut.
  • Tekið verður af skarið um að jafnt samkynhneigð pör sem gagnkynhneigð geta fengið óvígða sambúð skráða í þjóðskrá. Samhliða verður lagaákvæðum á fjölmörgum sviðum breytt til þess að ljóst sé að óvígð sambúð samkynhneigðra er lögð að jöfnu við óvígða sambúð gagnkynhneigðra. Þar með eru skapaðar forsendur fyrir því að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir njóti sömu réttinda varðandi almannatryggingar, lífeyrisréttindi, skattalega meðferð tekna og eigna, skipti dánarbúa o.fl.
  • Heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn verður sú sama og gagnkynhneigðra para. Áfram verður metið hverju sinni út frá hagsmunum barnsins hvort leyfi er veitt til ættleiðingar.
  • Kona í sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu öðlast heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði líkt og á við um gagnkynhneigð pör. Móðirin og maki hennar munu hafa sömu lagalegu skyldur og sömu lagalegu réttindi gagnvart barninu hvað varðar til dæmis forsjá og framfærslu. Áfram verður metið hverju sinni út frá hagsmunum hins ófædda barns hvort leyfi er veitt til tæknifrjóvgunar.
  • Tekin verða af tvímæli um að það falli undir markmið laga um töku fæðingar- og foreldraorlofs að auðvelda báðum samkynhneigðum foreldrum að vera samvistum við barn sitt.

Frumvarpið hefur verið sent þingflokkum og verður kynnt þeim formlega í dag.

 

Reykjavík 16. nóvember 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum