Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Nefnd um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og samkeppnishæfni landsins á því sviði. Nefndinni er falið að reifa þau tækifæri sem slík starfsemi skapar og þann ávinning sem af henni kann að hljótast fyrir efnahags- og atvinnulíf í landinu.

Nefndin hefur það verkefni að skoða lög og reglur um fjármálastarfsemi, fjármagnsmarkað, skattheimtu og félagaumsvif út frá því sjónarmiði hvort gera þurfi umbætur á löggjöf til að ýta undir alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi án þess að slaka á kröfum um eðlilegt aðhald og eftirlit. Nefndinni er einnig ætlað að undirbúa lagafrumvarp ef störf hennar leiða í ljós þörf á laga- og reglugerðarumbótum. Þá er henni falið að efna til faglegrar umræðu um alþjóðlega fjármálastarfsemi og kynna nýjustu viðhorf í þeim efnum á opinberum vettvangi.

Nefndin skal í vinnu sinni meðal annars taka mið af eftirfarandi atriðum:

  • Frjáls fjármagnsmarkaður og þróaðar fjármálastofnanir hafa átt drjúgan þátt í að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar á síðustu tveimur áratugum. Fjármálastarfsemi er orðinn einn af höfuðatvinnuvegum landsmanna og skapar athafnafólki á fjölmörgum sviðum möguleika til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Framrás íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi er afsprengi ákvarðana sem teknar voru um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, um frelsi í vaxtaákvörðunum, um einkavæðingu ríkisbanka og um hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Því ber brýna nauðsyn til þess að huga að því hvaða ákvarðanir þarf að taka til þess að áframhald geti orðið á þróun fjármálastarfseminnar á Íslandi.
  • Sóknarfæri Íslendinga eru ekki síst á sviði þjónustu. Í þeim geira ráða hugarfar og viðhorf fólks meira máli en staðsetning eða náttúurauðlindir. Sköpunarkraftur, menntun og stöðug viðleitni til að bæta samkeppnisstöðu ráða úrslitum. Sérhæfð þjónusta við íslensku alþjóðafyrirtækin, sem sprottið hafa upp að undanförnu, og fjármálaþjónusta við alþjóðleg fyrirtæki, sem hér kynnu að vilja hafa aðsetur, gætu orðið meðal helstu vaxtarbrodda atvinnulífsins ef rétt er haldið á málum. Stjórnvöld vilja fyrir sitt leyti stuðla að slíkri þróun, ekki síst til að hamla gegn atgervisflótta frá landinu og skapa ný og verðmæt störf og um leið mynda eftirsóknarvert samfélag hæfileikafólks á Íslandi. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að sameinast um það metnaðarfulla verkefni að koma fjármálaþjónustu hér á landi á svipað þróunarstig og best gerist annars staðar, í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Írlandi, Lúxemborg og Sviss. Nefndinni er falið að kanna með hvaða hætti best verði staðið að þessum málum á Íslandi.

Formaður nefndarinnar er Sigurður Einarsson stjórnarformaður KB banka. Aðrir nefndarmenn eru Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Pálmi Haraldsson framkvæmdastjóri, Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO, Jón Sigurðsson seðlabankastjóri, Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri LSR, Hulda Dóra Styrmisdóttir ráðgjafi, Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Sambands banka og verðbréfafyrirtækja, Halldór B. Þorbergsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands og Katrín Ólafsdóttir aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík.

Um er að ræða ólaunaða nefnd og er gert ráð fyrir að hún ljúki störfum vorið 2006.


                                                                                                                                       Reykjavík 24. nóvember 2005

 

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum