Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2006 Forsætisráðuneytið

Nefnd um málefni aldraðra


Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum stjórnvalda og Landssambands eldri borgara. Verkefni nefndarinnar er tvíþætt: Annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál aldraðra með tilliti til fjölbreyttari búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimilisþjónustu. Hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt verði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta.

Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, hefur verið skipaður formaður nefndarinnar. Auk hans sitja í nefndinni Ólafur Hjálmarsson, tilnefndur af fjármálaráðherra, Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af utanríkisráðherra, Ragnhildur Arnljótsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðherra, Vilborg Ingólfsdóttir, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, Ólafur Ólafsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Helgi K. Hjálmsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, Margrét Margeirsdóttir, tilnefnd af Landssambandi eldri borgara, og Pétur Guðmundsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara.

Ritari nefndarinnar er Fjóla Agnarsdóttir, forsætisráðuneyti. Jafnframt starfa með nefndinni Eyþór Benediktsson, fjármálaráðuneyti, og Vilborg Þ. Hauksdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Nefndinni er ætlað að skila tillögum næsta haust.


                                                                                                         Reykjavík 16. janúar 2006



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum