Hoppa yfir valmynd
22. mars 2006 Forsætisráðuneytið

Nefnd um Kjaradóm og kjaranefnd skilar af sér tillögum

Nefnd allra þingflokka sem ríkisstjórnin skipaði 30. janúar s.l. til að fara yfir lög um Kjaradóm og kjaranefnd hefur skilað forsætisráðherra niðurstöðum. Helstu tillögur nefndarinnar eru:

  • Kjaradómi og kjaranefnd verður steypt saman í fimm manna kjararáð, sem tryggja á í senn betra samræmi í kjaraákvörðunum og aukna skilvirkni. Þrír verða skipaðir af Alþingi, einn af fjármálaráðherra og einn af Hæstarétti. Fullskipað ráð ákveður laun forseta Íslands, ráðherra, þingmanna og dómara. Þriggja manna deild innan ráðsins ákveður kjör annarra sem undir það heyra.

 

  • Verkefni kjararáðs verður skilgreint sem ákvörðun launa ríkisstarfsmanna sem ekki geta ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Til bráðabirgða verður engin breyting á því hverjir heyra undir kjararáð, en til frambúðar mun ráðið sjálft úrskurða hvort tilteknir hópar uppfylli skilyrði laganna þannig að um kjör þeirra skuli fjallað af ráðinu.

 

  • Skerpt er á ákvæði um að kjararáð skuli við ákvarðanir sínar ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

 

  • Kjararáði verður heimilað að ákveða innbyrðis launahlutföll þeirra sem undir það heyra sjaldnar en árlega, t.d. á þriggja ára fresti og binda launin þess á milli við vísitölu í samráði við Hagstofuna.

 

  • Tekið er fram að úrskurðum og ákvörðunum kjararáðs verði ekki skotið til annars stjórnvalds, þ.e. það fari með endanlegt úrskurðarvald á stjórnsýslustigi.

 

  • Kjararáði er gert skylt að birta ákvarðanir sínar og ástæður fyrir þeim opinberlega á skipulegan og aðgengilegan hátt.

 

Fullt samkomulag var í nefndinni um alla efnisþætti. Formaður nefndarinnar var Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra. Aðrir í nefndinni voru Páll Þórhallsson, Aðalsteinn Árni Baldursson, Svanfríður I. Jónasdóttir, Svanhildur Kaaber, Þórunn Guðmundsdóttir og Gunnar Björnsson.  Stefnt er að því að stjórnarfrumvarp til laga um kjararáð verði lagt fram á Alþingi á næstu dögum.

 

 

                                                                                                            Reykjavík 22. mars 2006

 

 


 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum