Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2006 Forsætisráðuneytið

Tólf verk tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Tilkynnt hefur verið hverjir eru tilnefndir til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006 en verðlaunin verða afhent á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember.

Verðlaunin eru 350.000 danskar krónur og í ár verða þau veitt fyrir norrænt tónverk með einkenni raftónlistar.

,,Norræn tónskáld af yngri kynslóðinni hafa mikla þörf fyrir að gera tilraunir á öllum sviðum tónlistar og að kanna hvar ytri mörk hljómlistarinnar liggja. Víða er leitað fanga um efni og innblástur; í norræna goðafræði, í rafmagnaða framúrstefnutónlist, dægurtónlist, fjölmenningarlega heimstónlist, í dramatík fornsagna og táknrænar kvikmyndir nútímans. Þeir sem að þessu sinni eru tilnefndir til verðlaunanna eru verðugir fulltrúar auðugrar, frjórrar og frumlegrar tónlistarsköpunar á Norðurlöndum". Þetta segir Erik H.A. Jakobsen, sjálfstæður blaðamaður, í grein sem hann ritar um þá sem tilnefndir eru til verðlaunanna.

Ísland tilnefnir annars vegar Þuríði Jónsdóttur fyrir verkið "Flow and fusion", og hins vegar Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur , Jón Þór Birgisson, Georg Hólm, Orra Pál Dýrason og Kjartan Sveinsson fyrir "Hrafnagaldur".

Nánari upplýsingar um tilnefningar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2006 er að finna hér:

Heimasíða Norrænu ráðherranefndarinnar  

 

 

                                                                                                                       Reykjavík 21. apríl 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum