Hoppa yfir valmynd
7. mars 2007 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra opnar rafrænu þjónustuveituna Ísland.is

island.is

Forsætisráðherra, Geir H. Haarde opnaði í dag þjónustuveituna Ísland.is (www.island.is). Hér er um að ræða samstarfsverkefni ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga og er eitt mikilvægasta verkefnið í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004 – 2007, Auðlindir í allra þágu. Forsætisráðuneyti fer fyrir verkefninu.

Markmiðið er að Ísland.is verði eins konar lykill að íslensku samfélagi þar sem almenningur og fyrirtæki geti nálgast hagnýtar upplýsingar, afgreitt erindi sín og fengið aðgang að málum og upplýsingum sem varða samskipti við opinbera aðila. Stærsti ávinningurinn er fólginn í auðveldara aðgengi að opinberri þjónustu, lægri kostnaði þeirra sem þurfa að nota þjónustuna og auknum gæðum. Einnig má búast við miklu hagræði og ávinningi innan stjórnsýslunnar af vaxandi gagnvirkri þjónustu og sjálfsafgreiðslu almennings. Í fyrstu útgáfu þjónustuveitunnar sem nú hefur verið opnuð er stórum hluta þessara markmiða náð.

Þjónustuveitan er nokkurs konar leiðarvísir að opinberri þjónustu. Þar verður hægt að finna hagnýtar upplýsingar um þá málaflokka sem hún nær til og fjölda tilvísana í efni og þjónustu sem finna má á vefjum ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga. Þannig verður Ísland.is eðlilegur upphafspunktur þegar fólk er að leita eftir upplýsingum eða þjónustu opinberra aðila.

Markhópurinn er almenningur og fyrirtæki en í fyrstu útgáfunni er meginhluti efnisins fyrir almenning. Þar má finna efni um barneignir, val á skóla, bráðaþjónustu, heilsugæslu, búferlaflutninga, skattamál, neytendamál og andlát, svo dæmi séu tekin.

Á Ísland.is verður aðgengi að nánast öllum eyðublöðum ríkisins. Af því er mikið hagræði því þá er á einum stað hægt að finna þau eyðublöð sem tiltæk eru á rafrænu formi hjá ríkisstofnunum.

Upplýsingar fyrir innflytjendur verða aðgengilegar á nokkrum tungumálum og hafa þær verið unnar í samstarfi við félagsmálaráðuneyti og Fjölmenningarsetur. Einnig má finna ríflega 400 orðskýringar á þjónustuveitunni sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á veg og vanda að. Þær munu gagnast öllum notendum hennar, ekki síst innflytjendum.

Á Ísland.is eru aðgengilegar grunnupplýsingar um öll sveitarfélög og stofnanir á vegum ríkisins og er hægt að nálgast þær eftir landshlutum eða stafrófsröð.

Ísland.is er langtímaverkefni sem verður í stöðugri þróun næstu árin. Fjölmargir aðilar, innan og utan stjórnsýslunnar, hafa komið að verkefninu og hefur fyrirtækið Hugsmiðjan séð um tæknilega þróun verkefnisins. Við hönnun og vinnslu hefur verið lögð áhersla á að Ísland.is nýtist öllum, þar meðtöldum þeim sem að einhverju leyti búa við skerta færni.

Nánari upplýsingar veita:

Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti oFjóla Agnarsdóttir, verkefnisstjóri Ísland.is í forsætisráðuneyti.

Reykjavík 7. mars 2007

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum