Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2007 Forsætisráðuneytið

Niðurstöður úttektar á árangri og áhrifum af störfum Vísinda- og tækniráðs

Að frumkvæði Vísinda- og tækniráðs hefur farið fram úttekt á fyrsta starfstímabili ráðsins 2003-2006. Meginmarkmið með úttekinni var að leiða í ljós áhrif og árangur af stofnun Vísinda- og tækniráðs og laga um stuðning við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun sem tóku gildi vorið 2003. Jafnframt að fá mat á því hvernig einstök stefnumið Vísinda- og tækniráðs hafa náð fram að ganga og hvað betur má fara í starfsemi þess. Mats- og greiningarsvið menntamálaráðuneytis hafði umsjón úttektinni. Úttektin fór fram með þeim hætti að fyrst var unnin sjálfsmatsskýrsla sem Ágúst H. Ingþórsson hjá Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands bar ábyrgð á. Sú skýrsla byggði á samantekt opinberra gagna, viðtölum við hagsmunaaðila og könnun meðal umsækjenda í samkeppnissjóði. Ytra mat var síðan í höndum tveggja erlendra sérfræðinga þeirra Christoffer Taxell frá Finnlandi og Kim Forss frá Svíþjóð. Taxell er formaður háskólaráðs Åbo Akademi, fyrrverandi ráðherra og formaður samtaka atvinnulífsins í Finnlandi. Kim Forss rekur eigið matsfyrirtæki og hefur meðal annars unnið úttekt á sænska stjórnarráðinu og á verkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þeir Taxell og Forss kynntu sér gögn sjálfsmatsskýrslunnar og heimsóttu síðan Ísland og áttu fundi með fulltrúum rannsóknarstofnana, háskóla, fyrirtækja, ráðuneyta og hagsmunasamtaka og rituðu skýrslu um niðurstöður sínar.

Meginniðurstöður

  • Vísinda- og tækniráð hefur með stefnu sinni og störfum haft mjög jákvæð áhrif til eflingar rannsókna og nýsköpunar í landinu og náð góðum árangri í að framkvæma stefnumið sín. Ráðið og hið nýja fyrirkomulag á opinberum stuðningi við vísindi, tækni og nýsköpun hefur fest sig í sessi og vakið tiltrú helstu hagsmunaaðila.
  • Ráðið setti sér fá en skýr markmið í upphafi: Aukningu á ráðstöfunarfé sjóða, endurskipulagningu opinberra rannsóknastofnana og eflingu háskóla sem rannsóknastofnana. Þau hafa náðst í meginatriðum.
  • Ráðið þarf á þessum grundvelli að móta heildstæðari stefnu til lengri tíma og gefa þjóðfélagi og vísindasamfélagi áframhaldandi stefnumarkandi leiðsögn og ýta undir nýsköpun sem byggist á vísindum og tækni.
  • Tíminn sem liðinn er frá því að ráðið var sett á laggirnar er svo skammur að ekki er raunhæft að meta enn sem komið er áhrif þess á skilvirkni rannsóknakerfisins.

Styrkleikar

  • Framlög til rannsókna og þróunar hafa vaxið reglulega og haldist um 3% af landsframleiðslu þrátt fyrir að mikinn efnahagsvöxt undanfarin ár. Til samanburðar má geta að meðaltal framlaga til rannsókna og þróunar innan Evrópusambandsins er um 1,5% af landsframleiðslu. (sjá mynd 1)
  • Samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum á samkeppnishæfni þjóða hefur staða Íslands styrkst mjög síðasta áratuginn og síðustu þrjú árin hefur Ísland verið í hópi 10 efstu þjóða í heiminum samkvæmt þessum mælikvörðum (sjá mynd 2).
  • Stefna ráðsins um víðtækara samstarf um rannsóknarverkefni hefur skilað árangri og verkefnin eru nú umfangsmeiri en áður (sjá mynd 3). Lögð er áhersla á að áfram verði haldið á þeirri braut. Færri og stærri verkefni eru nú styrkt úr samkeppnissjóðunum.
  • Aukin framlög í samkeppnissjóði hafa haft jákvæð áhrif og er lagt til að hlutur samkeppnissjóðanna í fjármögnun rannsókna og þróunar verði enn aukinn. (sjá töflu 1).

Veikleikar

  • Skortur er á samhæfingu í framkvæmd stefnumiða Vísinda- og tækniráðs. Þörf er á meira samstarfi milli ráðuneyta um framkvæmd stefnunnar.
  • Efla þarf gæðamat með rannsóknum á vegum háskóla og rannsóknastofnana.
  • Mat á rannsóknum er um of einskorðað við birtingar og tilvitnanir. Leggja þarf meiri áherslu á að meta þjóðhagsleg áhrif rannsókna.
  • Of skörp skil eru á milli Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Stærstum hluta verkefna sem fá styrk úr fyrrnefnda sjóðnum er stýrt af háskólum en meirihluti styrkja frá þeim síðarnefnda rennur til fyrirtækja. Þetta kann að koma niður á hagnýtum rannsóknum með þátttöku fyrirtækja.

 

Áskoranir og tillögur

  • Nauðsynlegt er að þróa sterk gagnkvæm tengsl milli innlendra og erlendra vísindamanna og gera Ísland meira aðlaðandi fyrir erlenda vísindamenn og erlenda nýsköpun. Alþjóðavæðingin þarf að virka í báðar áttir til og frá landinu.
  • Hlutur einkaaðila í fjármögnun rannsókna- og þróunarverkefna þarf að aukast og efla þarf þátttöku fyrirtækja í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun. Brýnt er að laða fram aukið áhættufé. Efla þarf samstarf vísindamanna úr ólíkum greinum um rannsóknir og þróun á sviðum þar sem Ísland stendur sterkt, s.s. í orkurannsóknum, heilbrigðisvísindum og hafrannsóknum.
  • Aðlaga þarf skipulag og starfsemi stofnana sem styðja við framkvæmd stefnu Vísinda- og tækniráðs, s.s. Rannís og Impru, betur að starfsemi ráðsins.
  • Lagt er til að kynning á stefnu og störfum Vísinda- og tækniráðs verði aukin og reglubundið mat lagt á árangur þess og áhrif. Í skýrslunni eru tillögur um hvernig áfram skuli unnið að slíku mati.

Úttektarskýrsluna ásamt sjálfsmatsskýrslunni má finna á heimasíðu forsætisráðuneytisins og Vísinda- og tækniráðs.

 

Sjálfsmatsskýrsla Vísinda- og tækniráðs (Pdf 1.127 KB)

Ytra mat á Vísinda- og tækniráði (Pdf 397 KB)

 

Fréttin á pdf formi (Pdf 146 KB)

 

Reykjavík 26. apríl 2007

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum