Hoppa yfir valmynd
19. júní 2007 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherrar Norðurlanda ákveða að brugðist verði sameiginlega við hnattvæðingunni

Forsætisráðherrar Norðurlanda
Forsætisráðherrar Norðurlanda

Geir H. Haarde forsætisráðherra sat í morgun sumarfund norrænu forsætisráðherranna í Punkaharju í Finnlandi. Á fundinum var fjallað um Rússland og aukna spennu í samskiptum þess við Evrópusambandið og Bandaríkin, ýmis málefni tengd ESB, svo sem stjórnarskrármálið, loftslags-, umhverfis- og orkumál og framlag Norðurlanda í þeim efnum en loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður í Kaupmannahöfn eftir tvö ár. Þá var einnig rætt um umbótaferlið hjá SÞ sem staðið hefur undanfarin ár en Norðurlönd hafa verið mjög samstíga í afstöðu sinni til þess máls. Einnig var rætt um ástandið í Íran og samskipti þess við alþjóðasamfélagið. Þá var einnig komið inn á samskipti Evrópu og Bandaríkjanna almennt.

Á fundinum í morgun var einnig rætt um nýjar áherslur í norrænu samstarfi og samþykkt yfirlýsing um þær. Norðurlönd munu leitast við að bregðast við áskorunum hnattvæðingar í sameiningu í stað þess að hvert land verði með sérlausnir. Áhersla verður lögð á að kynna Norðurlönd sem eitt markaðssvæði í alþjóðlegri samkeppni með því að lyfta fram styrkleikasviðum svæðisins og ímynd þess. Samkvæmt yfirlýsingunni á meðal annars að auka til muna samstarf um rannsóknir og nýsköpun, orkumál, umhverfisvernd og loftslagsbreytingar. Af norrænu fjárlögunum fyrir 2008 verður allt að 60 milljónum danskra króna varið til hnattvæðingarverkefna.


                                                                                                   Reykjavík, 19. júní 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum