Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2008 Forsætisráðuneytið

Ferðir forsætisráðherra á næstunni

Forsætisráðherra sækir fund norrænu forsætisráðherranna um alþjóðavæðingu og áhrif hennar í bænum Riksgränsen í Norður-Svíþjóð dagana 8.–9. apríl. Fundinn sækir einnig viðskiptaráðherra sem staðgengill samstarfsráðherra Norðurlanda, auk starfsmanna. Tveir sérstakir gestir ráðherranefndarinnar koma einnig til fundarins frá Íslandi, ritstjóri Fréttablaðsins og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Alls verða 7 manns í hópnum. Ráðherra fer af landi brott síðdegis 7. apríl og kemur heim að kvöldi 9. apríl. Flugvél frá flugfélaginu Erni hefur verið leigð til fararinnar. Með því sparast 1-2 ferðadagar á mann. Lauslega áætlaður kostnaðarauki miðað við að fljúga í áætlunarflugi er um 8-900 þús. krónur. (Nánari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu norrænu ráðherranefndarinnar: www.norden.org .)

Forsætisráðherra hefur einnig þekkst boð Memorial-háskólans í St. John's á Nýfundalandi, Kanada, um að flytja árlegan hátíðarfyrirlestur kenndan við John Kenneth Galbraith 15. apríl nk.  Í þeirri heimsókn mun ráðherra funda með forsætisráðherra Nýfundalands og Labradors og undirrita samstarfsyfirlýsingu milli fylkisins og Íslands.  Skipulögð hefur verið viðamikil dagskrá fyrir ráðherra dagana 14. - 16. apríl í St. John´s, þar sem m.a. er gert ráð fyrir tveimur fyrirlestrum, þátttöku í málstofum í hagfræði- og stjórnmálafræðideildum Memorial-háskóla, viðtölum við kanadíska fjölmiðla og fundi í hafrannsóknastofnun Nýfundnalands.  (Nánari upplýsingar um Galbraith-fyrirlesturinn má finna á heimasíðu Memorial-háskóla: www.mun.ca/harriscentre/Galbraith_home.php  og http://www.mun.ca/harriscentre/Galbraith/2007-08/Haarde.php .)

Ráðgert er að ráðherra verði á Nýfundnalandi frá 13. til 16. apríl en hann verður einnig ræðumaður við sérstaka athöfn við Brandeis-háskóla í Boston 11. apríl. (Sjá heimasíðu Brandeis-háskóla:   www.brandeis.edu/wien/50th-reunion/program.php .)  Ferðaáætlun ráðherra gerir ráð fyrir brottför frá Íslandi 10. apríl og heimferð 16. apríl. 

Vegna óvenjumikilla skuldbindinga forsætisráðherra á erlendum vettvangi fyrrihluta aprílmánaðar, tók varamaður sæti hans á Alþingi 2. apríl en ráðherra sat sem kunnugt er leiðtogafund NATO í Búkarest dagana 2.–4. apríl sl.

Forsætisráðherra verður til svara í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 7. apríl og 17. apríl en verður einnig tiltækur á Alþingi 10. apríl.  Hann tekur formlega sæti á Alþingi að nýju 17. apríl.

Eins og ævinlega er dagskrá forsætisráðherra skipulögð með fyrirvara um óvæntar breytingar.

 

 

                                                                                                                           Reykjavík 6. apríl 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum