Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing Geirs H. Haarde, forsætisráðherra

Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa að undanförnu undirbúið margvíslegar aðgerðir til að styrkja aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé og efla traust á íslenskt fjármálakerfi og efnahagslíf.

Ég fagna þeirri tilkynningu sem gefin var út í dag um tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands og tel það mikilvægt skref í átt að ofangreindum markmiðum. Frekari aðgerðir til að styrkja erlenda lausafjárstöðu Seðlabankans eru í undirbúningi.

Af þessu tilefni vil ég einnig leggja áherslu á þá meginstefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að auknum hagvexti og skipulagsbreytingum á íslenska hagkerfinu með það fyrir augum að treysta efnahagslegan stöðugleika.

Til þess að bæta virkni peningamálastefnunnar mun ríkisstjórnin meðal annars þegar undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs.

Til þess að tryggja áframhaldandi trausta opinbera fjármálastjórn munu stjórnvöld leitast við að viðhalda hinu lága skuldastigi hins opinbera og styrkja umgjörð fjármálastefnunnar.

Stjórnvöld munu einnig vinna að þessum markmiðum á öðrum sviðum.

Reykjavík 16. maí 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum