Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2008 Forsætisráðuneytið

Opinber heimsókn forsætisráðherra til Grikklands hófst í dag

Opinber heimsókn Geirs H. Haarde forsætisráðherra til Grikklands hófst í Alþenu í dag og er miðborgin prýdd íslenskum fánum af því tilefni.

Forsætisráðherra átti fund með Kostas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, og snæddu þeir einnig saman hádegisverð. Fjallað var ítarlega um tvíhliða samskipti ríkjanna og samstarf þeirra á alþjóðavettvangi.

Forsætisráðherrarnir ræddu leiðir til að auka gagnkvæm viðskipti og fjárfestingar, m.a. með nýjum samningi um afnám tvísköttunar. Þá fjölluðu þeir um eflingu samstarfs við nýtingu jarðhita með miðlun íslenskrar þekkingar og tækni.

Forsætisráðherra þakkaði grískum stjórnvöldum yfirlýstan stuðning við framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrarnir fjölluðu um þróun mála á vestanverðum Balkanskaga og helstu viðfangsefni framundan á vegum Evrópusambandsins og NATO. Einnig stöðuna á Kýpur og í Mið-Austurlöndum. Þá skiptust þeir á skoðunum um ástandið í Georgíu.

Loks fóru þeir yfir stöðu efnahagsmála í ríkjunum tveimur og alþjóðlegar horfur á því sviði.

Að fundinum loknum var farið í nýtt fornminjasafn við Akrópólis-hæð, sem senn verður opnað almenningi.

Í kvöld verður efnt til móttöku fyrir gesti úr stjórnmálum, stjórnsýslu og atvinnulífi í Grikklandi á heimili kjörræðismanns Íslands.

Forsætisráðherra ávarpar á morgun ráðstefnu á vegum grískra stjórnvalda þar sem íslenskir aðilar kynna nýtingu Íslendinga á jarðhita til raforkuframleiðslu.

Íslenski og gríski fáninn með þinghúsið í Aþenu í baksýn.

Reykjavík 28. ágúst 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum