Hoppa yfir valmynd
5. september 2008 Forsætisráðuneytið

Árétting vegna umfjöllunar um bætur til fyrrverandi vistmanna á Breiðavíkurheimilinu

Að gefnu tilefni skal áréttað að á fundi sem forsætisráðuneytið og Viðar Már Matthíasson prófessor áttu með stjórn Breiðavíkursamtakanna og lögmanni þeirra 11. ágúst sl. kom fram að til stæði að leggja frumvarp um bótagreiðslur fyrir ríkisstjórn á næstu vikum. Sagt hefði verið frá frumvarpsdrögunum í ríkisstjórn sl. vor en eftir væri að útfæra frumvarpið endanlega og því væri svigrúm fyrir samtökin að koma athugasemdum að. Ráðuneytið óskaði eftir því að fundarmenn virtu trúnað um efni frumvarpsdraganna þar til athugasemdir samtakanna hefðu borist og ráðuneytið tekið afstöðu til þeirra. Á fundi starfsmanns ráðuneytisins með lögmanni samtakanna 29. ágúst sl. var farið yfir ýmsar mögulegar leiðir til að koma til móts við sjónarmið samtakanna eins og þau birtust í bréfi þeirra frá 15. ágúst sl. og áréttað að viðbrögð ráðuneytisins væru væntanleg. Það eru því vonbrigði að ráðuneytið skyldi ekki fá nauðsynlegt svigrúm til að svara athugasemdum samtakanna áður en farið var með málið í fjölmiðla með þeim hætti sem gert var. Ráðuneytið mun ekki svara frekari yfirlýsingum af hálfu samtakanna opinberlega heldur halda áfram að leita leiða til að leysa málið með fullnægjandi hætti.

Reykjavík 5. september 2008

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum