Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 Forsætisráðuneytið

Sendinefnd á vegum norskra stjórnvalda kemur til Íslands að ræða efnahagsástandið

Sendinefnd norskra embættismanna er komin til landsins til viðræðna við íslensk stjórn­völd um efnahagsástandið á Íslandi og til að kanna hvort Norðmenn geti lagt Íslend­ingum lið. „Koma nefndarinnar er afar jákvæð og við bindum vonir við að eiga árangurs­ríkar viðræður við þessa nágranna okkar og frændþjóð," segir Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Í norsku sendinefndinni eru fulltrúar frá norska fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og norska seðlabankanum. Aðstoðarráðuneytisstjóri fjármála­ráðu­neytisins, Martin Skancke, fer fyrir nefndinni.

Nefndin mun eiga fundi með fulltrúum íslenskra stjórnvalda í dag og á morgun. Til umræðu verða m.a. eftirfarandi mál:

  • Staða efnahagsmála;
  • Hugsanlegar ráðstafanir eða aðstoð sem íslensk stjórnvöld gætu óskað eftir við norsk stjórnvöld og myndu nýtast til að draga úr áhrifum fjármálakreppunnar.
  • Undirbúningur funda norrænu forsætisráðherranna í tengslum við Norðurlanda­ráðsþing í Helsinki í næstu viku.

Geir H. Haarde:

„Noregur er næsti nágranni Íslands. Samband landanna byggist á traustum grunni, sem er saga þjóðanna og sameiginlegar menningarrætur. Mér þykir afar vænt um þann mikla stuðning sem Norðmenn sýna okkur með því að senda hingað fulltrúa sína og hve þeim er umhugað um að aðstoða okkur í þeim mikla vanda sem við okkur blasir. Það er þakkarvert að takast skyldi að skipuleggja þessa ferð með skömmum fyrirvara."

Frekari upplýsingar gefur: Sturla Sigurjónsson, sendiherra í forsætisráðuneytinu, í síma 545 8400 eða um netfang: [email protected]

 

Reykjavík 23. október 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum