Hoppa yfir valmynd
27. október 2008 Forsætisráðuneytið

Úthlutun úr Jafnréttissjóði

Föstudaginn 24. október var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs gerði grein fyrir störfum stjórnar sjóðsins. Að þessu sinni bárust 10 umsóknir og í ár fengu 5 verkefni styrk samtals að upphæð 9,0 milljón króna. Þau verkefni sem fá styrk eru:

Kári Kristinsson, kennari við HR– Ýgi og launamunur: Áhrif persónuleikaþáttarins ýgi á launamun karla og kvenna. Ýgi er einn þeirra fáu persónuleikaþátta sem greinir kynin að – markmiðið er að kanna hvort ýgi hafi áhrif á launamun og þær kröfur sem einstaklingar gera m.a. í launasamtölum. Kannað verður hvort ýgi hafi áhrif á launakröfur og væntingar þátttakenda. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa frekari ljósi á óútskýrðan launamun kynjanna.

Erla Dóris Halldórsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ: Ljósfeður, læknar og kyngervi í íslensku heilbrigðiskerfi á árunum 1760-1933. – Verkefnið felst í að skoða aðkomu karla að barnsfæðingum á tímabilinu 1760-1933. Samkvæmt fornri hefð, hér á landi og erlendis, var stétt ljósmæðra eingöngu skipuð konum en læknar eingöngu karlar. Hins vegar sker Ísland sig úr að því leyti að karlmaður tók ljósmæðrapróf árið 1776. Markmið verkefnisins er að útskýra samfélagslegt hlutverk þeirra karla á Íslandi sem tóku á móti börnum hér á landi.

Gyða Margrét Pétursdóttir, doktorsnemi við HÍ: Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð. – Verkefnið felst í umfangsmikilli rannsókn á vinnumenningu, kynjatengslum og fjölskylduábyrgð. Sjónum er beint að fjölskyldu- og jafnréttisstefnu fyrirtækja í ljósi breytinga á vinnumarkaði. Rannsóknin beinir sjónum að þeim öflum sem hafa áhrif á þau úrræði sem eru á vinnumarkaði til að samræma fjölskyldulíf og atvinnulíf.

Anna Guðrún Edvardsdóttir, stundakennari og nemi: Háskólamenntun og byggðaþróun. – Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu á þróun háskólanáms og skoða tengsl háskólamenntunar og byggðaþróunar. Reynt verður að kortleggja þá þætti sem hafa haft áhrif á orðræðuna þ.e. menntunarlega, samfélagslega og pólitíska orðræðan og svo hvaða þættir hafa haft áhrif á byggðaþróun. Þáttur kvenna og staða þeirra er sérstaklega skoðuð.

Ásta Dís Óladóttir, dósent háskólanum á Bifröst: Kynjahlutfall í stjórnun og æðstu stjónendastöðum. – Markmið rannsóknarinnar er að fá skýra mynd af þeirri fylgni sem kann að vera á milli afkomu fyrirtækja og kynjahlutfalla meðal stjórnarmanna og æðstu stjórnenda. Könnuð verður fylgni milli kynjahlutfalla og arðsemi eigin fjár annars vegar og kynjahlutfalla og aukningar rekstrarhagnaðar.

Reykjavík 24. október 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum