Hoppa yfir valmynd
29. október 2008 Forsætisráðuneytið

Færeyingar bjóða Íslendingum aðstoð sína

Færeyingar hafa boðist til að lána Íslendingum 300 milljónir danskra króna. Boðið var sett fram á fundi í Helsinki þar sem þing Norðurlandaráðs stendur yfir.

Á fundi forsætisráðherra Íslands, Geirs H. Haarde, færeyska lögmannsins, Kaj Leo Johannsen, og fleiri ráðherra og embættismanna frá báðum löndum gerði Johannsen grein fyrir þverpólitískri ákvörðun færeyska lögþingsins um að bjóðast til að lána Íslendingum 300 milljónir danskra króna. Það jafngildir 45 milljónum evra. Færeyingar sem eru tæplega 50 þúsund talsins hafa náin söguleg og menningarleg tengsl við Íslendinga.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra:

„Þetta er mikið drengskaparbragð af hálfu Færeyinga, vina okkar og nágranna. Þessi stuðningur er ómetanlegur á erfiðum tímum. Við þurfum að koma jafnvægi á í efnahagslífinu og metum mikils að vinir okkar sýni stuðning í verki."

Kaj Leo Johannsen lögmaður:

„Ísland á í miklum erfiðleikum sem við höfum skilning á og okkur finnst mikilvægt að hjálpa vinum í neyð. Góð tengsl eru á milli þjóðanna og við viljum sýna stuðning okkar með þessu framlagi."

 

Reykjavík 29. október 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum