Hoppa yfir valmynd
30. október 2008 Forsætisráðuneytið

Íslendingar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2009

Merki formennskuárs Íslands 2009
Merki formennskuárs Íslands 2009

Vistvæn orka og vákort fyrir Norður-Atlantshafið: Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnir formennskuáætlun Íslendinga á Norðurlandaráðs-þingi í Helsinki 28. október, en þeir leiða starfið í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2009. Yfirskrift formennskuáætlunarinnar er Norrænn áttaviti og er gerð grein fyrir helstu stefnumálum í fjórum undirköflum. Rauður þráður í áætluninni er að stórefla samstarf um rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði loftslags, orku og umhverfismála. Ítarupplýsingar um áætlunina eru á nýjum formennskuvef: http://www.norden2009.is

Íslendingar hafa frumkvæði að fjölmörgum samstarfsverkefnum á formennskutímanum.

Þeirra á meðal eru:

  • Gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið sem verður grundvöllur fyrir samræmdar aðgerðir komi til umhverfisslyss.
  • Þverfaglegt samstarf sem miðar að því að efla frumkvöðlamenningu á öllum stigum skólakerfisins
  • Átak til að auka áhuga á norrænum menningar- og málskilningi.

Björgvin Sigurðsson samstarfsráðherra segir áherslumál Íslendinga endurspegla mikinn metnað í norrænu samstarfi, en forsætisráðherrar Norðurlanda mörkuðu fyrir rúmu ári stefnu í fjórtán liðum til að mæta áskorunum hnattvæðingarinnar.

„Eitt mikilvægasta verkefnið sem bíður okkar í norrænu samstarfi er að miðla sérþekkingu Norðurlandaþjóða í að framleiða og nýta endurnýjanlega orkugjafa í þeim tilgangi að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Íslendingar leggja jafnframt ríka áherslu á samræmdar aðgerðir til að vernda lífríki hafsins, en brýnt er að Norðurlönd komi sér upp sams konar viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra mengunarslysa í Norður-Atlantshafi og þegar hefur verið gerð fyrir Eystrasalt".

Efnt verður til fjölmargra ráðstefna og málþinga á Íslandi á formennskuárinu 2009, m.a. um nýsköpunarmennt, gæði í norrænu háskólastarfi og nýsköpun í sjávarútvegi. Stærsti viðburðurinn verður hnattvæðingarþing í lok febrúar, þar sem orku- og umhverfismál verða til umræðu. Sérþekking og nýsköpun norrænna þjóða í umhverfistækni og endnýjanlegum orkugjöfum verður þar í forgrunni. Á þinginu verða saman komnir forsætisráðherrar Norðurlanda, samstarfsráðherrar, forystumenn í norrænu atvinnulífi og fremstu sérfræðingar um hnattvæðingu og nýsköpun.

Meira um áherslur Íslendinga á formennskuvefnum http://www.norden2009.is

Formennskuáætlun Íslendinga á pdf-formi

Nánari upplýsingar gefur Snjólaug Ólafsdóttir skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu, [email protected]

Reykjavík 30. október 2008



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum