Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2008 Forsætisráðuneytið

Lögum um eftirlaun ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna verður breytt

Til þess að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórarinnar hafa ríkisstjórnarflokkarnir komist að sam­komu­lagi um að leggja til breytingar á l. nr. 141/2003 um eftirlaun. Markmið breytinganna er að draga úr mis­ræmi milli lífeyrisréttinda þeirra sem falla undir lögin og almennra launþega :

Í fyrsta lagi verði aldurslágmark til töku eftirlauna hækkað úr 55 árum í 60 ár fyrir ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara.

Í öðru lagi er lagt til að réttindaávinnsla hjá alþingismönnum verði eftirleiðis 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári, í stað 3% ávinnslu samkvæmt núgildandi lögum. Hjá ráðherrum og hæstaréttardómurum verði ávinnslan lækkuð úr 6% í 4%.

Í þriðja lagi er lagt til að girt verði fyrir það að þessir hópar njóti samtímis eftirlauna og launa frá ríkinu.

Í fjórða lagi er lagt til að sérákvæði um eftirlaunakjör forsætisráðherra verði felld á brott þannig að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi eftirleiðis sömu reglur og um aðra ráðherra.

Áunnin réttindi ráðherra og þingmanna samkvæmt núgildandi lögum skerðast ekki en frá og með gildis­töku breytinga, 1. júlí 2009, ávinna þessir sér rétt samkvæmt nýju lögunum. Þegar kemur að töku eftirlauna verða þau ákveðin í samræmi við árafjölda í hvoru kerfi. Núverandi hæstaréttardómarar njóti hins vegar óskertra réttinda samkvæmt núgildandi lögum út skipunartíma sinn.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi í næstu viku.

Reykjavík 21. nóvember 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum