Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Fréttatilkynning vegna áfangaskýrslu IMF

Efnahagsáætlun stjórnvalda sem unnin er í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) gengur almennt vel samkvæmt skýrslu starfsmanna AGS. Skýrslan er birt að beiðni íslenskra stjórnvalda, en hún byggir á vinnu sendinefndar sjóðsins sem hér var í desember. Skýrslan var birt á heimasíðu AGS í dag og má að auki finna á heimasíðum íslenskra íslenskra stjórnvalda. Megin niðurstaða hennar er sú að áætlunin gangi almennt vel, heildarmarkmið áætlunar íslenskra stjórnvalda og sjóðsins séu enn raunhæf, en nauðsynlegt er að vinna af einurð til þess að árangur náist.

Brýnasta verkefnið til skamms tíma var að koma ró á gengi krónunnar og hefur það gengið að mestu eftir að mati AGS. Fjárlög ársins 2009 voru einnig í samræmi við áætlunina og mótun stefnu í ríkisfjármálum til meðallangs tíma er hafin. Endurskipulagningu bankakerfisins miðar sömuleiðis í rétta átt en þar eru þó meiriháttar verkefni framundan að mati starfsmanna sjóðsins. Er það mat í samræmi við skoðun íslenskra stjórnvalda á málinu.

Nokkur töf hefur orðið á fjármögnun bankanna vegna þess hve viðamikla vinnu þarf að klára áður en hún verður möguleg. Frá því starfsmenn AGS voru hér í desember hefur vinnan hins vegar gengið mun betur en fram að þeim tíma. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte metur nú eignir og skuldir bankanna og hið alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki. Oliver Wyman, mun svo yfirfara þá vinnu alla til samræmis við þær kröfur sem samkomulagið við AGS gerir ráð fyrir. Starfsmönnum AGS verður kynnt staða málsins þegar þeir koma til landsins í febrúar og þá verður framvinda málsins metin.

Þrátt fyrir að aðgerðir í peningamálum hafi þegar skilað árangri telja starfsmenn AGS að enn sé of snemmt að breyta um stefnu. Með auknum stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og í verðlagi geti skapast tækifæri til þess að losa smám saman um hömlur á fjármagnsflæði og lækka vexti í litlum skrefum.

Í heild má því segja að í meginatriðum gangi vonum framar að framfylgja þeirri metnaðarfullu áætlun sem stjórnvöld settu fram í samstarfi við AGS um endurreisn íslensks efnahagslífs. Ljóst er að aðstæður kunna að breytast hratt og því mikilvægt að geta brugðist við þeim breytingum. Það hefur tekist með ágætum fram til þessa.

Fyrsta formlega endurskoðun efnahagsáætlunarinnar fer fram í febrúar. Þá munu starfsmenn AGS ásamt íslenskum stjórnvöldum meta stöðu hennar og hugsanlega framvindu. Einnig verða þá ákveðin ný viðmið sem höfð verða til hliðsjónar við aðra endurskoðun áætlunarinnar.

Skýrsla sjóðsins er aðgengileg hér í íslenskri þýðingu og á eftirfarandi slóðum:

www.island.is

www.stjr.is

www.sedlabanki.is

og á ensku á upplýsingavef stjórnvalda; www.iceland.org/info

Reykjavík 12. febrúar 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum