Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórn samþykkir frumvarp um kosningalög

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um breytingar á kosningalögum. Frumvarpið miðar að því að tryggja framgang þeirra hugmynda sem kynntar voru í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar um að auðvelda persónukjör í alþingiskosningum. Frumvarpið verður rætt í þingflokkum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi á morgun, 18. febrúar, og náist samstaða meðal flokkanna kunna að verða samþykktar breytingar sem öðlast gildi fyrir næstu kosningar. Meðal þess sem þá er hugsanlegt að breytist er að kjósendur geti raðað á lista í kjörklefanum.

Ríkisstjórnin ræddi enn fremur framhald aðgerða sinna í efnahagsmálum og þau úrræði sem hún hyggst grípa til á næstu dögum og vikum til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum. Meðal þessara mála eru ráðstafanir til aðstoðar þeim sem tekið hafa myntkörfulán. Engar ákvarðanir liggja fyrir í þessum málum en áfram er unnið hörðum höndum að undirbúningi fjölmargra mála sem kynnt verða eins skjótt og frekast er kostur.

Ríkisstjórnin samþykkti einnig á fundi sínum frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra til laga um breytingar á barnaverndarlögum og fjölmörg staðfestingarmál utanríkisráðherra er varða breytingar á samningum EFTA við nokkur ríki innan og utan Evrópu, staðfestingu ákvarðana er varða Schengen samstarfið og fullgildingu samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) um vinnueftirlit í iðnaði og verslun og vinnueftirlit í landbúnaði.

Reykjavík 17. febrúar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum