Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin eykur upplýsingagjöf til almennings

Í samræmi við verkáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur verið mótuð skýrari stefna í upplýsingamiðlun, bæði hvað varðar framsetningu og innihald. Starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins hefur á síðustu dögum unnið markvisst að því að finna leiðir til að bæta upplýsingastreymi stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á gagnsæi og lifandi upplýsingagjöf. Þetta verður gert með tilkynningum, með fundum, svörun fyrirspurna og miðlun efnis á vefjum stjórnarráðsins. Dagskrá ríkisstjórnarfunda verður gerð aðgengilegri og nú verða blaðamannafundir það sömuleiðis.

Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar með ítarefni er aðgengileg í heild sinni á netinu frá og með deginum í dag.

Verkefnaskráin verður uppfærð eins oft og þörf er og hún gefur öllum kost á að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin er að fást við og hvernig verkum hennar miðar.

Um leið verða upptökur af vikulegum blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar aðgengilegar í gegnum vefinn. Fundirnir eru haldnir í Þjóðmenningarhúsinu og þar sitja forsvarsmenn stjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fyrir svörum.

Allar tilkynningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eða ráðherra og ráðuneyta má finna á vefjum stjórnarráðsins og viðkomandi ráðuneyta, en upplýsingaveita stjórnvalda er á www.island.is. Þar eru fréttir og ítarefni tengt fjármálavandanum, leiðbeiningar til fólks í vanda og mikilvægir tenglar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum