Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Umbætur í lýðræðismálum

Stjórnarskrárbreytingar, stjórnlagaþing og persónukjör

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt hugmyndir ráðgjafarhóps, sérstaks ráðgjafa og frumvörp sem á þeim eru byggðar, er mæla fyrir um breytingar á stjórnarskrá, breytingar á kosningalögum og kosningum til sérstaks stjórnlagaþings. Málunum hefur verið vísað til þingflokka stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Stjórnarskrárbreytingar:

Ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál

Fest í lög að ríkið megi ekki varanlega afsala náttúruauðlindum í þjóðareign. Einnig fjallað um auðlindamálefni í stærra samhengi í stjórnarskrá sem og þátt þeirra í umhverfismálum.

Aðferðir við breytingar á stjórnarskrá

Lagt er til að nýtt ákvæði komi inn sem breyti núgildandi ákvæði um breytingar á stjórnarskránni í 1. mgr. 79. gr. Hér er í meginatriðum byggt á þeirri niðurstöðu sem samkomulag var um í stjórnarskrárnefnd, vorið 2007. Lagt er til að frumvarp sem Alþingi samþykkir um breytingu á stjórnarskrá skuli lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um stjórnlagaþing

Gerð er tillaga um ákvæði í stjórnarskrá sem er stjórnskipuleg heimild eða grundvöllur fyrir stjórnlagaþing. Lagt er til að þingfulltrúar verði 41 og kosnir persónukjöri. Verkefni þingsins verður að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins þar sem byggt verði á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda. Skal Alþingi gefa umsögn sína um nýja stjórnarskrá áður en hún er samþykkt. Síðan skal kosið um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og er gert ráð fyrir að a.m.k. 25% kjósenda á kjörskrá þurfi að samþykkja stjórnarskrána til þess að hún öðlist gildi. Nánari reglur um kosningu fulltrúa á stjórnlagaþing og skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum þingkosningum vorið 2009.

Breytingar á kosningalögum – persónukjör

Ríkisstjórnin hefur til samræmis við verkefnaskrá sína lagt fram frumvarp um breytingar á kosningalögum. Að baki liggur sú sannfæring ríkisstjórnarflokkanna að bjóða eigi upp á frekara persónukjör en nú er. Meginbreytingin felst í því að þeir listar eða flokkar sem bjóða fram til Alþingis eiga þess kost að bjóða fram óraðaða lista. Kjósendur slíkra lista myndu þá ráða röðun hans í einu og öllu. Samkvæmt frumvarpinu geta þeir flokkar sem það kjósa, boðið fram raðaða lista með sama hætti og tíðkast hefur.

Allar nánari upplýsingar og uppfærð aðgerðaáætlun ríkisstjórnar eru á vefnum island.is.

Sjá einnig:



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum