Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Minnisblað vegna Evrópuskýrslu um fjármálastarfsemi lagt fram í viðskiptanefnd

Minnisblað um Larosiere skýrsluna, um fjármálastarfsemi, sem samið var af þremur ráðuneytum, var lagt fram í viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Skýrslan hefur verið mjög til umræðu vegna breytinga á lögum um stjórnskipulag Seðlabanka Íslands.

Larosiere skýrslunni er ætlað að fjalla um framtíð reglna Evrópusambandsins um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni. Skýrslan er birt í dag 25. febrúar, en framkvæmdastjórn ESB tekur ákvörðun um viðbrögð við henni 4. mars n.k. og mun væntanlega nýta hana til að undirbúa tillögur til leiðtogafundar ESB sem haldinn verður 19. – 20. mars nk.

Líklegt er talið að skýrslan eigi eftir að hafa umtalsverð áhrif á umræður innan ESB um skýrari reglur um eftirlit með fjármálastarfsemi. Jafnframt á hún vafalítið eftir að hafa áhrif á það hvernig ESB vill nálgast alþjóðlega samvinnu milli eftirlitsaðila.

Skýrslan skiptist í fjóra kafla. Í fyrsta kafla er fjallað um orsakir fjármálakreppunnar. Í öðrum kafla er fjallað um úrbætur á regluverki á fjármálamarkaði. Í þriðja kafla er fjallað um breytingar á eftirliti á fjámálamarkaði og loks er í fjórða kafla fjallað um breytingar sem gera þarf á alþjóðavettvangi.

Í minnisblaðinu kemur fram að Larosiere-skýrslan snúi ekki með beinum hætti að því frumvarpi um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem nú er til umfjöllunar í viðskiptanefnd Alþingis og verði því ekki séð að hún eigi að hafa áhrif á afgreiðslu þess.

Minnisblað ráðuneyta má sjá hér (PDF skjal)

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér. ec.europa.eu/commission_barroso/president/pdf/statement_20090225_en.pdf



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum