Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2009 Forsætisráðuneytið

Seðlabankafrumvarpið samþykkt

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Seðlabanka Íslands hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Grundvallarbreytingar verða á stjórnskipulagi bankans, bankastjórum er fækkað og til starfa tekur peningastefnunefnd. Miklar faglegar kröfur verða gerðar til þeirra sem sækjast eftir embætti bankastjóra. Þessar breytingar miða að því að styrkja faglegan grunn bankans og efla traust á honum til lengri og skemmri tíma. Um leið mun þessi breyting verða til að auka traust á íslenska fjármálakerfinu.

Tvær grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands

Með lögunum er gerðar tvær grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands. Annars vegar er bankastjórn Seðlabanka Ísland lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar og í stað hennar skipaður einn seðlabankastjóri sem stýrir bankanum og aðstoðarseðlabankastjóri sem er staðgengill hans. Hins vegar er í lögunum mælt fyrir um að innan bankans starfi svokölluð peningastefnunefnd.

Peningastefnunefnd

Í lögunum er það nýmæli að mælt er fyrir um að innan Seðlabanka Íslands skuli starfrækt sérstök peningastefnunefnd sem fari með ákvörðunarvald um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum en stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Skulu ákvarðanir peningastefnunefndar grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum. Miðar sú nýskipan sem felst í starfsemi nefndarinnar innan Seðlabanka Íslands að því að styrkja enn frekar faglegan grundvöll ákvarðana bankans í peningamálum.

Faglegar kröfur við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra

Þau nýmæli eru einnig í lögunum að gerðar eru ríkar faglegar kröfur við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra.

Samkvæmt lögunum skulu seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri skipaðir að undangenginni auglýsingu og eru gerðar kröfur um að umsækjendur um stöðurnar hafi lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og að þeir búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Þá er mælt fyrir um að forsætisráðherra skuli við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra skipa þriggja manna nefnd er hafi það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda um stöðurnar. Miða þessi ákvæði laganna að því að tryggja að í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra veljist ávallt hæfir einstaklingar og jafnframt sá einstaklingur sem telst hæfastur meðal umsækjanda um viðkomandi stöðu.

Samkvæmt lögunum skal forsætisráðherra svo fljótt sem við verður komið eftir gildistöku laganna auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laust til umsóknar samkvæmt ákvæðum laganna.

Tímabundin setning seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra

Forsætisráðherra mun nú þegar við gildistöku laganna í samræmi við ákvæði þeirra setja tímabundið menn sem uppfylla skilyrði laganna í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og munu þeir gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga samkvæmt ofangreindu. Samkvæmt þessu mun nýr seðlabankastjóri og nýr aðstoðarseðlabankastjóri taka til starfa í Seðlabankanum þegar á morgun enda séu lögin þá komin til framkvæmda í kjölfar birtingar þeirra.

Skipan tveggja fulltrúa í peningastefnunefnd

Forsætisráðherra mun jafnframt innan tíðar skipa tvo sérfræðinga á sviði efnahags- og peningamála í peningastefnunefnd í samræmi við ákvæði laganna.

Kosning nýs bankaráðs Seðlabanka Íslands

Samkvæmt lögunum skal Alþingi eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laganna kjósa nýtt bankaráð Seðlabanka Íslands ásamt varamönnum og fellur þá frá sama tíma niður umboð þeirra sem nú sitja í bankaráðinu.

 

Lög um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands á vef Stjórnartíðinda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum