Hoppa yfir valmynd
9. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra mælir fyrir frumvörpum um breytingar á stjórnarskrá og persónukjöri til alþingis

Forsætisráðherra mælti þann 6. mars fyrir frumvarpi til stjórnskipunarlaga og breytingum á stjórnarskrá Íslands en frumvörp þessa efnis höfðu verið boðuð í verrkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og eru hluti þeirra lýðræðislegu umbóta sem heitið hafði verið.

Í frumvarpinu til stjórnskipunarlaga er kveðið á um að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um að ríkið megi ekki afsala sér með varanlegum hætti náttúruauðlindum í þjóðareign. Einnig er gert ráð fyrir nýju ákvæði sem auðveldar breytingar á stjórnarskrá og tryggir áhrif almennings á þær með þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þingrofs. Þá er gert ráð fyrir því að sett verði í stjórnarskrá ákvæði þess efnis að skylt sé að fara með fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu tiltekin málefni ef 15 af hundraði kjósenda á kjörskrá krefst þess. Þá kveður frumvarpið á um að bundið verði í stjórnarskrá ákvæði um að skipa sérstakt stjórnlagaþing. Þá var fyrr í vikunni mælt fyrir frumvarpi um persónukjör til alþingis.

Náttúruauðlindir í þjóðareign

Í fyrirliggjandi stjórnarskrárfrumvarpi er gert ráð fyrir að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál. Því er slegið föstu að ríkið megi ekki afsala með varanlegum hætti náttúruauðlindum í þjóðareign og fjallað er um auðlindir í víðu samhengi sem þátt í umhverfismálum. Stjórnarskrárákvæðið um náttúruauðlindir í þjóðareign mun ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu. Með hinu nýja stjórnarskrárákvæði verður staðfest að útgerðarmenn eða aðrir sem njóta slíkra heimilda munu aldrei öðlast beinan og varanlegan eignarrétt á fiskveiðiauðlindinni en stjórnarskrárákvæðið staðfestir að löggjafinn getur, í krafti þess að hann fer með forsjá auðlindanna í nafni þjóðarinnar, breytt skipulagi fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Aukin beint lýðræði

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að skylt sé að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni ef 15 af hundraði kjósenda á kjörskrá krefjast þess. Heimild til slíks verður þannig bundin í stjórnarskránni í almennu ákvæði en stefnt er að nánari útfærslu í lögum svo sem í hvaða búning eigi að setja slíka kröfu, hvernig standa eigi að því að safna undirskriftum kjósenda, hvernig mál skuli borin upp og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Einföldun breytinga

Einnig er gert ráð fyrir nýju ákvæði sem auðveldi breytingar á stjórnarskránni og tryggi áhrif almennings á þær. Kjarni þessa ákvæðis er sá að samþykkja þurfi breytingar á stjórnarskránni sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu, í stað þess að þing sé rofið í kjölfar þess að stjórnarskrárbreyting sé samþykkt, almennar þingkosningar fari fram og frumvarpið samþykkt að nýju án breytinga. Með þessu gefst þjóðinni kostur á að taka beina afstöðu til stjórnarskrárbreytinga, sem er sjálfsögð og eðlileg skipan í lýðræðisþjóðfélagi

Stjórnlagaþing án stjórnmálamanna

Í frumvarpinu er enn fremur að finna ákvæði um að stjórnlagaþing bætist við stjórnarskrána. Slíkt ákvæði verður stjórnskipuleg heimild eða grundvöllur fyrir því að efna til stjórnlagaþings, en nánari útfærsla á störfum og skipulagi þingsins verður sett með almennum lögum. Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að frumvarpi um stjórnlagaþing sem eru fylgiskjal með stjórnarskrárfrumvarpinu er stefnt að því að kosningar til stjórnlagaþings fari fram í haust, þingfulltrúar verði 41 og kosnir persónukjöri. Þeir mega ekki vera þingmenn eða varaþingmenn og skulu bjóða sig fram í eigin nafni. Gert er ráð fyrir 41 þjóðkjörnum fulltrúa og er þinginu falið að semja nýja stjórnarskrá. Þegar og ef stjórnlagaþing hefur samþykkt nýja stjórnarskrá skal hún borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem a.m.k. 25% kjósenda á kjörskrá verða að samþykkja hana svo hún taki gildi.
Persónukjör stax í næstu kosningum
Forsætisráðherra mælti einnig fyrir á Alþingi frumvarpi til laga um breytingu á kosningalögum sem ætlað er að innleiða persónukjör. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að einstök framboð geti valið hvort þau stilli upp röðuðum lista líkt og tíðkast hefur eða bjóði fram óraðaðan lista. Velji framboðin óraðaða lista yrði endanleg röð frambjóðenda í höndum kjósenda listanna sem myndu í kjörklefanum raða þeim upp, hver með sínu nefi. Verði frumvarp þetta að lögum verður persónukjör í komandi kosningum.

Nánari upplýsingar:

Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum