Hoppa yfir valmynd
13. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýkur heimsókn sinni

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefur undanfarnar rúmar tvær vikur unnið með íslenskum stjórnvöldum að fyrstu endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins. Sendinefndin, undir stjórn Mark Flanagans, hefur einnig átt fundi með fjölda hagsmunaðila til þess að kynna sér þróun íslensks efnahagslífs og áhrif efnahagshrunsins.

Á fundum stjórnvalda og AGS hefur verið rætt um horfur í efnahagsmálum og fjármálum, framvindu efnahagsáætlunarinnar til þessa, stefnu núverandi ríkisstjórnar og útfærslu áætlunarinnar næstu misserin. Viðræðurnar hafa verið uppbyggilegar í alla staði og sérfræðiaðstoð sjóðsins víða komið að góðu gagni.

Rætt hefur verið um mótun stefnu í ríkisfjármálum til næstu ára, áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta og lækkun vaxta, nýja tímaáætlun fyrir enduruppbyggingu bankarkerfisins og greiðsluaðlögun fyrir heimilin.

Áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er endurskoðuð ársfjórðungslega og lýkur hvert sinn með viljayfirlýsingu sem að grunni til byggir á þeirri fyrstu sem samin var í nóvember á síðasta ári, en tekur jafnramt mið af þróun mála og viðræðum við sjóðinn. Í yfirlýsingunni er aðgerðum stjórnvalda lýst og stefnan mótuð fyrir næstu misseri. Á næstu vikum verða nokkur tæknileg atriði vegna áætlunarinnar útkljáð. Í kjölfarið verður ný viljayfirlýsing lögð fyrir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til umfjöllunar. Búist er við afgreiðslu sjóðsins á vormánuðum og að henni lokinni berst íslenskum stjórnvöldum annar hluti láns hans.

Heildarlánveiting AGS til Íslands nemur 2,1 milljarði bandaríkjadala. Þegar hafa verið greiddar 827 milljónir dala inn á reikning Seðlabanka Íslands í seðlabanka Bandaríkjanna.

Ný viljayfirlýsing og greinargerð sendinefndar sjóðsins verða birtar að lokinni umfjöllun stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Reykjavík 13. mars 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum