Hoppa yfir valmynd
13. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Fréttatilkynning sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, (AGS), undir forystu Marks Flanagan dvaldi á Íslandi 26. febrúar til 13. mars til að meta stöðu efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda. Hún er hluti 2,1 milljarða dala fjárhagslegrar fyrirgreiðslu sjóðsins sem samþykkt var 19. nóvember sl. Sendinefndin átti árangursríka fundi með háttsettum embættismönnum, fulltrúum atvinnulífsins og verkalýðsfélaga. Í lok heimsóknar sendinefndarinnar sendi Mark Flanagan frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Við ræddum fjölmörg málefni, m.a. efnahagshorfur, samræmda og skipulagða áætlun um að aflétta gjaldeyrishöftum og lækka stýrivexti, tæknilegan undirbúning áætlunar til meðallangs tíma um að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, endurskipulagningu gömlu bankanna og greiðsluaðlögun heimilanna. Árangur náðist á öllum þessum sviðum og áfram verður unnið að því að ljúka nokkrum tæknilegum atriðum. Þegar þau hafa verið leyst munu viðræður halda áfram og er þeim lýkur verður hægt að leggja skýrslu sendinefndarinnar um stöðu efnahagsáætlunarinnar fyrir framkvæmdastjórn AGS.

„Sendinefndin komst að þeirri niðurstöðu að horfur í efnahagslífinu eru í grófum dráttum í samræmi við það sem áætlun AGS og íslenskra stjórnvalda gerir ráð fyrir. Efnahagsáfallið hefur leitt til samdráttar í efnahagsumsvifum en ætla má að aukinnar virkni fari að gæta í lok þessa árs. Gengi íslensku krónunnar er stöðugt og verðbólga virðist vera á niðurleið. Báðir þessir þættir gefa til kynna að efnahagsáætlunin er að skila árangri.

„Peningamálastefnan og stefnan í ríkisfjármálum er að taka breytingum. Efnahagshorfur benda til að aðstæður séu að skapast til að losa um peningastefnuna í skrefum. Til að styðja við þá peningamálastefnu og tryggja að skuldir ríkisins séu viðráðanlegar þarf stefnan í ríkisfjármálum fljótlega að hverfa frá því að snúast um að vinna gegn samdrætti yfir í að ná jafnvægi í ríkisútgjöldum.

„Hraða þarf endurbótum fjármálakerfisins. Sendinefndin fagnar áframhaldandi stefnu íslenskra stjórnvalda um að taka ekki við frekara tapi einkageirans vegna bankakreppunnar, að tryggja sanngjarna meðferð innistæðueigenda og kröfuhafa sem gerir ekki upp á milli þeirra og er í samræmi við gildandi lög; og að koma á fullkomlega starfhæfu bankakerfi sem fyrst.

„Sendinefndin fagnar markmiði ríkisstjórnarinnar um greiðsluaðlögun sem mun greiða fyrir endurreisn efnahagslífsins. Miklu skiptir að slík áætlun hafi skýr markmið, lágmarki kostnað fyrir ríkissjóð og sé tímasett í réttu samhengi við aðrar endurbætur á fjármálakerfinu.“

Reykjavík 13. mars 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum