Hoppa yfir valmynd
17. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Stóraukin upplýsingagjöf til almennings - nýtt útlit og endurskipulagning á www.island.is

Í samræmi við verkáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var mótuð skýr stefna í upplýsingamiðlun, bæði hvað varðar framsetningu og innihald. Starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins hefur unnið markvisst að því að bæta upplýsingastreymi stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á gagnsæi og lifandi upplýsingagjöf. Þetta er meðal annars gert með tilkynningum, með fundum, svörun fyrirspurna og miðlun efnis á vefjum stjórnarráðsins. Dagskrá ríkisstjórnarfunda er aðgengileg á vef, sem og fréttamannafundir ríkisstjórnarinnar.

Ísland.is endurhönnuð, stóraukið efni og endurskipulagning framsetningar

Jafnframt hefur vefsíðan www.island.is verið endurhönnuð og endurskipulögð og hún veitir nú allar upplýsingar sem varða endurreisn samfélagsins, framvindu efnahagsmála og önnur atriði sem máli skipta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Gríðarleg vinna hefur farið í efnisöflun, uppfærslu á eldra efni og viðbætur sem nú má finna á síðunni. Einnig er unnið að stöðugum umbótum á síðunni www.iceland.org sem þjónar því hlutverki að miðla upplýsingum til umheimsins um stöðu mála á Íslandi. Tíðinda þaðan er að vænta innan ekki allt of langs tíma.

Verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar uppfærð jafnharðan

Verkefnaskráin er uppfærð eins oft og þörf er og hún gefur öllum kost á að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin er að fást við og hvernig verkum hennar miðar. Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar með ítarefni er aðgengileg í heild sinni á vefnum island.is.. Upptökur af vikulegum fréttamannafundum ríkisstjórnarinnar eru aðgengilegar í gegnum vefinn. Fundirnir eru haldnir í Þjóðmenningarhúsinu og þar sitja forsvarsmenn stjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fyrir svörum. Allar tilkynningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eða ráðherra og ráðuneyta má finna á vefjum stjórnarráðsins og viðkomandi ráðuneyta, en upplýsingaveita stjórnvalda er á www.island.is. Þar eru fréttir og ítarefni tengt fjármálavandanum, leiðbeiningar til fólks í vanda og mikilvægir tenglar.

Unnið að samantekt allra verkefna ráðuneyta frá hruni

Unnið er að því að safna saman upplýsingum um allar aðgerðir ráðuneyta sem gripið hefur verið til frá hruninu. Þessi vinna var langt komin í tíð síðustu ríkisstjórnar en tafðist vegna stjórnarskipta. Nú er uppfærð verkefnaskrá með samræmdum upplýsingum og áherslum langt komin í vinnslu og verður birt á vefjum ráðuneyta og www.island.is um leið og þeirri samantekt lýkur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum