Hoppa yfir valmynd
25. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra kynnir fjölda úrræða vegna skuldsettra heimila í ræðu hjá ASÍ

Forsætisráðherra ávarpaði aukaársfund ASÍ í dag, 25. mars og sagði meðal annars við það tækifæri að aldrei væri mikilvægara en nú að verkalýðshreyfingin léti til sín taka og til sín heyra og ráðherra hvatti hreyfinguna til að taka virkan þátt í umræðum um endurreisn samfélagsins.

Vandi heimilanna

Forsætisráðherra fór yfir vanda skuldsettra heimila og atvinnulausra í ræðu sinni og sagðist þess fullviss að þau úrræði sem fram væru komin myndu duga lang flestum heimilum. Sá hópur sem eftir stæði væri sá hópur sem þyrfti á einhverskonar séraðstoð að halda og ríkisstjórnin hefði fundið leiðir til koma þeim til bjargar.

Í þessu skyni biðu nú samþykkis á Alþingi lagafrumvörp um greiðsluaðlögun samningakrafna, greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, frestun nauðungaruppboða, aukinn stuðning og bætta stöðu einstaklinga sem nálgast greiðsluþrot.

,,Allt þetta,” sagði ráðherra, “ásamt þeim lagabreytingum sem þegar hafa verið samþykktar um lækkun dráttarvaxta og heimilda til Íbúðalánasjóðs um að leigja húsnæði, eru til þess fallnar að verja heimili og búsetuöryggi þeirra fjölskyldna sem lenda í alvarlegum fjárhagsvanda á næstu misserum. Það er þessi hópur sem þarf raunverulega á aðstoð að halda í formi niðurfellingar á skuldum.

Slík niðurfelling gæti verið 10%, 20% eða 50%, 1 milljón króna, 4 milljónir eða 10 milljónir – það fer allt eftir aðstæðum hvers og eins. Það er vegna þessa hóps sem bankar og fjármálastofnanir hafa reiknað með afskriftum lána eins og ýmsum hefur orðið tíðrætt um. Vandi þessa fólks verður ekki leystur með því að lækka skuldir með flatri niðurfellingu á alla, líka skulda þeirra sem sem nóg hafa handa á milli.”

Ráðherra hafnar tillögum um flata niðurfellingu skulda

Forsætisráðherra gagnrýndi þær tillögur sem fram hafa komið um almenna niðurfellingu skulda, sérstaklega þá hugmynd að fella bæri niður 20% allra skulda fyrirtækja og heimila. Ráðherra sagði þá tillögu kosta um 800 til 900 milljarða króna og fæli í sér stærstu eignatilfærslu sögunnar frá einstaklingum til fyrirtækja. Forsætisráðherra hafnaði því algerlega að leggja slíkar byrðar á skattgreiðendur framtíðarinnar.
Forsætisráðherra sagði jákvæð teikn á lofti í efnahagsmálunum, sérstaklega væri uppörvandi að verðbólga væri á hröðu undanhaldi og mælist nú innan við 2% þegar 3ja mánaða verðbólga er umreiknuð til eins árs. Þetta þýddi að búast mætti við frekari vaxtalækkun á næstunni.

Hvatt til nýs sáttmála um ábyrgð, hófsemi og jafnræði

Forsætisráðherra hvatti til þess að þjóðin gerði nýjan sáttmála við sjálfa sig sem byggði á jafnræði, samfélagslegri ábyrgð, hófsemd, náungakærleik og bættu siðferði ekki síst. Þessi gildi, sagði ráðherra, munu leiða okkur upp úr þeim öldudal sem við erum nú í.
Ráðherra hvatti til þess að skipulag og stjórnarhættir lífeyrissjóðanna yrðu teknir til skoðunar og hún hvatti fyrirtækin í landinu sérstaklega til að nýta þann hagnað sem þau hugsanlega hefðu af rekstri sínum til að efla atvinnuuppbyggingu og fjölga störfum í stað þess að greiða eigendum arð. Hún sagði tíma ofurlauna liðinn og að fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra yrðu að gæta jafnræðis þegar kæmu að því að meta vinnuframlag launafólks annars vegar og hagnað eigenda hins vegar.


Atvinnuleysi óásættanlegt, jöfnuður ríki í skattkerfinu

Forsætisráðherra ítrekaði í ræðu sinni á aukaársfundi ASÍ að eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar væri að berjast gegn atvinnuleysi. Í þeim tilgangi hefði ríkisstjórnin gripið til margvíslegra aðgerða. Forsætisráðherra ítrekaði einnig þá afstöðu sína að skattkerfið þyrfti að vera réttlátara en verið hefur og tryggja yrði að byrðarnar leggðust ekki þyngst á þá sem minnst bæru úr býtum. Þeim hefði verið hlíft á síðustu árum sem mest hefðu haft milli handa og tími slíkra ráðstafana væri liðinn.

Ræða forsætisráðherra í heild



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum