Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra segir næstu ríkisstjórn eiga að sækja um ESB-aðild

Forsætisáðherra sagði það vilja sinn að næsta ríkisstjórn sækti um aðild að Evrópusambandinu í ávarpi sínu á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag, 17. apríl. Ráðherra boðaði jafnframt fækkun ráðuneyta sem koma að löggjöf um fjármálamarkað, endurskoðun peningastefnu og aukna samvinnu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Forsætisráðherra sagði við upphaf máls síns að sjaldan hefði slíkt ávarp verið haldið á meiri óvissutímum en nú og rakti þær hugmyndir sem hún taldi skipta mestu til að eyða þeirri óvissu. Hún ítrekaði vilja sinn til að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu og sagðist þess fullviss að það yrði gæfuspor.

Orðrétt sagði ráðherra í ræðu sinni. „Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar á að vera umsókn um aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru. Niðurstaða aðildarviðræðna mun leiða í ljós svart á hvítu þau tækifæri sem felast í aðild að Evrópusambandinu. Þá niðurstöðu eigum við óhrædd að leggja í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Seðlabanki Íslands leiti samvinnu við Seðlabanka Evrópu

„Fyrir liggur að þjóðir sem ekki hafa tekið upp Evru, svo sem Danir, hafa notið aðstoðar Seðlabanka Evrópu og að bankinn hefur aðstoðað aðrar þjóðir svo sem Ungverja í þeirra erfiðu aðstæðum. Ég vil að samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði leitað samninga um hvort og þá hvernig Seðlabanki Evrópu gæti komið að því að halda hér gengi stöðugu til skemmri tíma, eða þar til unnt væri að taka upp Evru hér á landi. Í Evrópuskýrslunni sem kynnt var fyrr í dag eru kostir og gallar þessara leiða reifaðar. Ljóst er að hvers kyns samvinna við Seðlabanka Evrópu myndi auka trúverðugleika Seðlabanka íslands og gera honum auðveldara að ná fram markmiðum sínum um stöðugleika.“

Fækkun ráðuneyta, sameining stofnana

Forsætisráðherra boðaði fækkun ráðuneyta og að þegar yrði á vegum forsætisráðuneytisins undirbúnar tillögur um að fækka þeim ráðuneytum sem hafa með löggjöf á sviði fjármálamarkaðar að gera og sem fyrst eftir kosningar sett á fót nefnd sem kanni nánar kosti og galla þess að auka samstarf milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og eða sameina þessar tvær stofnanir. Í því starfi verði meðal annars metið hvernig megi stuðla að því að þessar stofnanir beiti eftirlitsheimildum sínum af fullum krafti.

Endurskoðun peningastefnunnar, endurmat á verðtryggingu

Forsætisráðherra sagði einnig að nú væri tími til kominn að peningastefnun yrði endurskoðuð. Ráðerra sagði: „Ég hef því ákveðið að fela nýrri peningastefnunefnd Seðlabankans að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati. Jafnframt tel ég rétt að Seðlabankinn leggi mat á hvernig við getum stigið mikilvæg skref til þess að koma okkur út úr verðtryggingunni.“

Traust er forsenda endurreisnar – Kaupþingsmál í Þýskalandi leyst

Ráðherra margítrekaði í ræðu sinni mikilvægi þess að endurskapa traust á íslenskum fjármálmarkaði bæði innanlands og utan og sagði stjórnvöld vinna að því markmiði með öllum ráðum. Hún nefndi í því sambandi endurskoðun laga um Seðlabankann og samstarf við velviljuð nágrannaríki um lánafyrirgreiðslu auk hagstæðra samninga um Icesave sem hlut í því ferli. Ráðherra vék því næst að málefnum Kaupþings í Þýskandi og sagði: „Hins vegar liggur nú fyrir, og gaman að geta sagt frá því hér í dag, að eignir Kaupþings eru nægilegar til þess að gera upp við þýska innistæðueigendur. Mikilvægum áfanga í uppgjöri og sátt gagnvart aþjóðasamfélaginu er þar með náð.“

Ræðuna í heild má nálgast á vef forsætisráðuneytisins



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum