Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra leggur til að endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokka verði flýtt

Forsætisráðherra hefur skrifað öllum formönnum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og lagt til að hraðað verði endurskoðun laga um fjárreiður stjórnmálaflokka. Telur ráðherra að í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hafi um fjármál stjórnmálaflokkanna að undanförnu sé rétt að flýta þessari endurskoðun. Í bréfinu segir:

„Í bráðabirgðaákvæði við lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra segir að forsætisráðherra skuli eigi síðar en 30. júní 2010 skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lögin og framkvæmd þeirra. Að mati forsætisráðherra er rétt að flýta þessari endurskoðun í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hefur að undanförnu um fjármál stjórnmálaflokka og ábendinga nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn spillingu (GRECO), sbr. skýrslu nefndarinnar frá 4. apríl 2008. Eins og fram kemur í skýrslunni ber íslenska ríkinu ber að upplýsa GRECO ekki síðar en 31. október næstkomandi um viðbrögð við ábendingum nefndarinnar.

Í ljósi jákvæðra viðbragða forystumanna stjórnmálaflokkanna yrði nefndinni einnig falið að fylgja eftir og leiða til lykta hugmyndir forsætisráðherra um að Ríkisendurskoðun, eftir atvikum í kjölfar lagabreytingar, yrði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006, eða fram að gildistöku laga nr. 162/2006. Ríkisendurskoðun yrði falið að skila samræmdum niðurstöðum sem fyrst um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga og eftir atvikum, frambjóðenda þeirra vegna forvala og/eða prófkjara á umræddu tímabili.

Þess er hér með farið á leit að þér tilnefnið fulltrúa yðar flokks til setu í nefndinni. Tilnefna skal karl og konu sem bæði skulu koma til greina sem aðalmenn eða varamaður. Tilnefningum skal skilað fyrir 1. maí næstkomandi.“



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum