Hoppa yfir valmynd
15. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Mikilvægt að Norðurlandaþjóðir hafi sterka rödd í Evrópusamstarfinu

Frá forsætis- og samstarfsráðherrafundi á Egilstöðum 14. júní 2009
Forsætis- og samstarfsráðherrafundur á Egilstöðum 14. júní 2009

Á fundi norrænu forsætisráðherranna á Egilstöðum 14. júní gerði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra grein fyrir því að Alþingi Íslendinga hefði nú til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan gerði ráð fyrir því að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Forsætisráðherra kvaðst vonast til þess að tillagan yrði samþykkt og óskaði eftir stuðningi og góðum ráðum norrænu ESB-ríkjanna í því ferli sem þá tæki við.
Forsætisráðherrar norrænu Evrópusambandsþjóðanna fögnuðu þessum áformum og buðu Íslendinga velkomna í Evrópusamstarfið.

Fredrik Reinfeldt, forsætisáðherra Svíþjóðar, greindi jafnframt á fundinum frá helstu stefnumálum Svía á formennskutíma þeirra í Evrópusambandinu en þeir taka við formennsku
1. júlí n.k. Hann upplýsti að Svíar myndu leitast við að greiða aðildarumsókn Íslendinga leið hjá Evrópusambandinu og koma henni á dagskrá eins fljótt og auðið væri. Forsætisráðherrar Danmerkur og Finnlands lýstu einnig vilja til að verða að liði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að fundur norrænu forsætisráðherrarnna sýni að Evrópusamstarfi sé ekki ætlað að koma í stað þess norræna. Norðurlandaþjóðir hafi sterka rödd í Evrópusamstarfinu, þar standi þær saman þegar kemur að sameiginlegum hagsmunamálum og stefnumiðum eins og í málefnum Norður-Atlantshafsins og norðurskautssvæðanna.

Forsætisráðherrarnir ræddu einnig viðbrögð við alþjóðlegu fjármálakreppunni og mikilvægi norræns samráðs og samstarfs til að draga úr afleiðingum hennar. Þá fjölluðu þeir um tillögur um aukið samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum sem kynntar voru í skýrslu Thorvalds Stoltenbergs fyrrverandi utanríkis og varnarmálaráðherra Noregs. Þeir voru sammála um að líta á tillögurnar sem viðbót við alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum sem fram fer á vegum NATO og Evrópusambandsins og jafnframt að vinna að því að útfæra nokkrar tillögur betur, s.s. um aukið samstarf Norðurlanda um öryggi á N-Atlantshafi og loftrýmisgæslu.

Þá gáfu forsætisráðherrarnir frá sér yfirlýsingu í loftslagsmálum þar sem kveðið er á um að styrkja beri norrænt samstarf til að knýja fram alþjóðlegan sáttmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum