Hoppa yfir valmynd
24. júní 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðuneytið birtir niðurstöður matsnefndar vegna ráðningar í stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra

Forsætisráðuneytið hefur nú að aflokinni skoðun komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að birta niðurstöður matsnefndar um hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Niðurstöður nefndarinnar bárust ráðuneytinu 29. maí.

Umsækjendur áttu kost á að koma athugasemdum við niðurstöður nefndarinnar á framfæri við ráðuneytið. Athugasemdir bárust frá 11 þeirra og óskaði ráðuneytið því eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún teldi að athugasemdir umsækjenda gæfu tilefni til þess að nefndin endurskoðaði mat sitt á viðkomandi.

Með bréfi nefndarinnar, dags. 11. júní, var ráðuneytinu tilkynnt að nefndin teldi ekki að umræddar athugasemdir gæfu henni tilefni til að breyta mati sínu á einstökum umsækjendum.

Að loknu þessu ferli fór fram í ráðuneytinu nákvæm skoðun á upplýsingalögum varðandi heimildir til birtingu gagna málsins, meðal annars þeirra ákvæða sem kveða á um að umsóknir um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og önnur gögn er þær varða séu eða geti verið undanþegnar upplýsingarétti almennings.

Af þeim lögum sem um ræðir er ljóst að stjórnvöld þurfa að meta það í hverju tilviki hvort gögn innihaldi viðkvæmar upplýsingar um einkahagi sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari og varða persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Eftir að hafa yfirfarið niðurstöður nefndarinnar, hæfnismat um einstaka umsækjendur og bréf nefndarinnar vegna athugasemda umsækjenda er það niðurstaða forsætisráðuneytisins að ekkert í þeim gögnum sé þess eðlis, með hliðsjón af sjónarmiðum um einkalífsvernd umsækjenda, að ráðuneytinu sé óheimilt að birta þau. Hefur ráðuneytið þá jafnframt í huga þau mikilvægu sjónarmið sem lúta að gagnsæi og aðhaldi gagnvart stjórnvöldum við ákvarðanatöku um skipan í þýðingarmikil opinber embætti.

Með vísan til framangreinds hefur forsætisráðuneytið ákveðið að birta matsniðurstöður nefndarinnar, dags. 28. maí, og afstöðu hennar til athugasemda umsækjanda sbr. bréf, dags. 11. júní og fylgja skjölin fréttatilkynningunni.

Fyrrgreind matsnefnd var skipuð af forsætisráðherra 5. maí. Hún skyldi leggja mat á hæfni umsækjenda um embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Í henni áttu sæti þau Guðmundur K. Magnússon, skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, Lára V. Júlíusdóttir, skipuð samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og Jónas Haraldz, skipaður án tilnefningar og var hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Er þess að vænta að ákvörðun forsætisráðherra um skipun í embættin liggi fyrir fljótlega.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum