Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2009 Forsætisráðuneytið

Dómsmálaráðherra leggur fram frumvörp um persónukosningar til Alþingis og sveitarstjórna

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi tvö frumvörp um persónukjör, annars vegar í alþingiskosningum og hins vegar í sveitarstjórnarkosningum. Er þetta í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hundrað daga áætlun hennar. Persónukjör í kosningum er á meðal forgangsverkefna ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og einn af hornsteinum þeirra lýðræðisumbóta sem hún telur nauðsynlegt að beita sér fyrir. Stefnt er að því að persónukjör verði fyrst viðhaft í sveitarstjórnarkosningum sem haldnar verða næsta vor.

Með persónukjöri er kjósendum falið stóraukið vald við val þeirra einstaklinga sem fá umboð þeirra til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum. Markmiðið er að efla lýðræði í landinu. Með frumvörpunum er fylgt eftir þeirri þróun sem orðið hefur víðast hjá grannþjóðum okkar. Stigið var skref í þessa átt með gildandi kosningalögum frá árinu 2000 en þá var vald kjósenda til breytinga á listum aukið all nokkuð. Listar hafa þó eftir sem áður verið boðnir fram raðaðir og áhrif kjósenda felast einkum í því að geta hafnað frambjóðendum, þ.e. strikað þá út. Með frumvarpi formanna fjögurra af fimm þingflokkum á síðasta vetri var lagt til að þessu yrði snúið við, að kjósendur fengju óraðaða lista í hendur í kjörklefanum og röðuðu svo frambjóðendum að vild. Þó var það látið í hendur flokkanna, hvers og eins, að ákveða hvort svo yrði. Er nú lagt til að skrefið verði stigið til fulls og gert skylt að bjóða fram óraðaða lista, jafnt í sveitarstjórnar- sem alþingiskosningum. Af vissum hagkvæmnisástæðum er þó gengið út frá því að frambjóðendum á neðri hluta listanna sé raðað upp. Þetta er bæði gert til þess unnt sé að viðhalda hefð um sérstök „heiðurssæti“ en ekki síður til að gera val kjósenda viðráðanlegra. Engu að síður munu kjósendur ráða vali frambjóðenda í öll þing- og sveitarstjórnarsæti og einnig í varamannasæti.

Kosning fer þannig fram að kjósendur merkja við þann lista sem þeir vilja kjósa og tölusetja frambjóðendur listans með 1, 2, 3 o.s.frv. svo marga sem þeim hugnast. Gerðar eru sérstakar ráðstafanir til að draga úr líkum á ógildingu kjörseðla við þessa tölusetningu.

Lagt er til að við talningu atkvæða í persónukjörinu verði beitt aðferð sem nefnd hefur verið forgangsröðunaraðferð. Aðferðin hefur ekki verið notuð hérlendis áður en henni er beitt allvíða erlendis, t.d. hefur henni lengi verið beitt á Írlandi. Aðferðafræðin er talin sú þróaðasta sem völ er á við persónukjör, enda má fullyrða að engin önnur aðferð nái með eins afgerandi hætti að endurspegla vilja kjósenda til þess hvaða frambjóðendur þess lista sem þeir kjósa skuli ná kjöri. Talning atkvæða í persónukjörinu er þannig útfærð að lesið er í vilja kjósenda til hins ýtrasta. Fái frambjóðandi sem kjósandi hefur raðað númer 1 ekki nægjanlegan fjölda atkvæða til að ná kjöri er litið á aðrar óskir kjósandans um skipan í sæti listans. Sama gerist ef kjósandinn styður mann sem nýtur mikils fylgis. Fái slíkur frambjóðandi fleiri atkvæði en hann þarf til að ná kjöri er horft til þess hvaða aðra frambjóðendur kjósendur hans vildu styðja. Kúfurinn, umframatkvæði frambjóðandans, eru þá færð til hinna í réttum hlutföllum. Aftur er markmiðið að fara að vilja kjósenda eins og frekast er kostur.

Undirstrika ber að með persónukjöri er ekki hróflað við grundvelli kosningakerfis okkar, hlutfallskosningum. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og hefur persónukjörið einungis áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi kjördæmi eða sveitarstjórn.

Frumvörpin eru samin af hópi sérfræðinga og embættismanna undir yfirumsjón Þorkels Helgasonar stærðfræðings en með þeim starfaði samráðshópur fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Reykjavík 9. júlí 2009

Meðfylgjandi eru frumvörpin á pdf. formi.

Frv. til laga um br. á lögum um kosningar til Alþingis

Frv. til laga um br. á lögum um kosningar til sveitarstjórna



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum