Hoppa yfir valmynd
3. september 2009 Forsætisráðuneytið

Bréf til forsætisráðherra Breta og Hollendinga vegna Icesave - embættismenn ræddust við í gær

Í kjölfar samþykktar Alþingis á lögum um ríkisábyrgð á láni Breta og Hollendinga til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sendi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi bréf í síðustu viku, þar sem óskað er atbeina þeirra til að ná fram farsælli lausn að því er varðar ICE-SAVE málið og fjallað um hugsanlega fundi forsætisráðherranna.

Í gær hittust jafnframt embættismenn frá Íslandi, Hollandi og Bretlandi á óformlegum fundi í Haag í Hollandi. Tilgangur fundarins var að upplýsa og skiptast á skoðunum um nýsamþykkt lög á Alþingi um ríkisábyrgð á láni Breta og Hollendinga til Tryggingarsjóðs til þess að greiða lágmarkstryggingu til innstæðueigenda Icesave reikninga. Af hálfu Íslendinga sátu fundinn embættismenn í forsætis-, fjármála- og utanríkisráðuneytum, auk Seðlabanka Íslands. Íslensku fulltrúarnir skýrðu á fundinum út einstök atriði í meðferð málsins og frumvarpið sjálft. Góður andi ríkti á fundinum og taka fulltrúar landanna væntanlega upp þráðinn í næstu viku, í þeim tilgangi að ná fram sameiginlegum skilningi eins fljótt og auðið er. Í hádeginu í dag funduðu fulltrúar forsætis-, fjármála- og utanríkisráðuneytis síðan með fjárlaganefnd Alþingis og upplýstu um framangreind atriði.

Reykjavík 3. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum