Hoppa yfir valmynd
8. september 2009 Forsætisráðuneytið

Viðbrögð við nýrri skýrslu um þrjú vistheimili

  • Sett verði almenn lög um bætur vegna misgjörða á vistheimilum

  • Skipuð verði bótanefnd sem tengiliður vistmanna starfar með

  • Skattfrelsi bóta og erfðaréttur vegna einstaklinga sem fallið hafa frá

  • Eftirlit með vistheimilum af hálfu hins opinbera verði bætt

Ríkisstjórnin ákvað eftirfarandi sem fyrstu viðbrögð við skýrslu vistheimilisnefndar um Heyrnleysingjaskólann, Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg en forsætisráðherra kynnti hana á ríkisstjórnarfundi í morgun.

1. Starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins verði falið að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt verði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007. Þar verði byggt á þeim viðræðum sem þegar hafa átt sér stað milli ráðuneytisins og Breiðavíkursamtakanna en hliðsjón höfð af niðurstöðum vistheimilisnefndar í hinni nýju áfangaskýrslu. Stefnt verði að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fljótlega eftir að haustþing kemur saman.

2. Starfshópi á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins verði falið að undirbúa stefnumótun stjórnvalda í málefnum heyrnarlausra með hliðsjón af áður fram komnum tillögum og áfangaskýrslu vistheimilisnefndar.

3. Ítrekað verði að úrræði þau á sviði geðheilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisyfirvöld komu á laggirnar í kjölfar skýrslu vistheimilisnefndar um Breiðavíkurheimilið standi einnig til boða fyrrverandi vistmönnum á öðrum heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

4. Félags- og tryggingamálaráðherra taki mið af áfangaskýrslunni við endurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd og eftirliti á því sviði.

Sett verði almenn lög

Að því er varðar mögulegar bætur til fyrrverandi vistmanna á heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 þá hefur forsætisráðuneytið frá því í apríl síðastliðnum átt í viðræðum og bréfaskiptum við Breiðavíkursamtökin. Er þar meðal annars rætt um hvernig megi endurbæta það frumvarp sem þáverandi ríkisstjórn hafði látið vinna vorið 2008 og kynnt hafði verið samtökunum á þeim tíma. Það frumvarp var meðal annars gagnrýnt fyrir að bætur væru of lágar og of mikil áhersla lögð á að sýnt væri fram á geðrænar afleiðingar vistunar. Síðustu samskipti voru þau að ráðuneytið sendi bréf með ákveðnum hugmyndum 8. júlí sl. og Breiðavíkursamtökin svöruðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Ráðuneytið hafði lýst sig reiðubúið til að útfæra bráðabirgðasátt varðandi Breiðavíkurheimilið á grundvelli núgildandi fjárheimilda en því var hafnað.

Þess vegna er áfram unnið að því að sett verði almenn lög sem geti átt við um bætur vegna misgjörða á öllum þeim heimilum sem koma til skoðunar á grundvelli laga nr. 26/2007 um vistheimilisnefnd. Áður en rætt er um fjárhæðir í einstaka tilfellum er mikilvægt að ná sátt um aðferðafræðina við ákvörðun bóta, þ.e. rammann um sátt samfélagins við þá sem eiga um sárt að binda eftir dvöl á vistheimilum fyrir börn.

Meginatriði löggjafar

Ráðuneytið sér fyrir sér að meginatriði löggjafar verði þessi:

a. Sett verði á fót bótanefnd en samhliða henni starfi tengiliður vistmanna við stjórnvöld er aðstoði fyrrverandi vistmenn við að ná fram rétti sínum, m.a. varðandi félagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þegar skýrsla vistheimilisnefndar liggur fyrir verði auglýst eftir þeim sem telja sig eiga rétt á bótum.

b. Bótanefnd geti úrskurðað almennar bætur er nemi tiltekinni fjárhæð, sem eftir er að ákveða, og sé meginskilyrði að vistmaður hafi sjálfur orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan vistun stóð. Ekki verði um strangar sönnunarkröfur að ræða.

c. Í sérstökum tilfellum verði heimilað að hækka bætur að álitum. Hækkun bóta geti m.a. komið til vegna alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, aðdraganda vistunar eða tímalengdar vistunar.

d. Kveðið verði á um skattfrelsi bóta, erfðarétt vegna einstaklinga sem fallnir eru frá, aðgang bótanefndar að gögnum vistheimilisnefndar til að einfalda málsmeðferð og lögmannsaðstoð.

Forsætisráðherra mun nú fela starfshópi að undirbúa frumvarp á grundvelli samskipta ráðuneytisins við Breiðavíkursamtökin og í ljósi fyrstu áfangaskýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um þrjú heimili til viðbótar eins og áður segir. Samráð verður haft við samtök fyrrverandi vistmanna og hlutaðeigandi sveitarfélög.

Skýrsla vistheimilisnefndar verður lögð fram á Alþingi í næsta mánuði.

Hún er aðgengileg hér.

Reykjavík 8. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum