Hoppa yfir valmynd
22. september 2009 Forsætisráðuneytið

Endurnýjun samnings um kolefnisjöfnun bílaflota ríkisins

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að endurnýja samning við Kolvið um kolefnisjöfnun bílaflota ríkisins fyrir árið 2009. Greiddar verða 14.460.000 kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til verkefnisins.

Í apríl 2007 samþykkti ríkisstjórnin að gerður yrði samningur við Kolvið um kolefnisjöfnun bílaflota ríkisins fyrir árið 2008. Kolviður er sjóður í eigu Skógræktarfélags Íslands og Landverndar sem miðar að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti og græða þannig örfoka land.

Viðskiptavinir Kolviðar kaupa kolefnisbindingu til þess að jafna útblástursmengun ökutækja sinna og vegna flugferða. Ríkissjóður kolefnisjafnaði útblástur ökutækja sinna árið 2008 og gerir það nú aftur fyrir árið 2009. Verð á kolefnisjöfnun per tonn af CO2 hefur hækkað á milli ára. Í samningnum frá því í fyrra var reiknað með kr. 1.400 per tonn en sökum kostnaðarhækkana er verðið nú um kr. 1.600 tonnið. Þar af leiðandi verður kostnaðurinn við að kolefnisjafna bílaflota ríkisins nú tæplega tveimur milljónum króna hærri en í fyrra.


Reykjavík 22. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum