Hoppa yfir valmynd
28. september 2009 Forsætisráðuneytið

Áform um endurskipulagningu opinberrar þjónustu: Markviss, skilvirk og hagkvæm stjórnsýsla og þjónusta

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í viðamiklar breytingar og endurskipulagningu á verkefnum ráðuneyta og stofnana. Markmið breytinganna eru, auk þess að nýta þá fjármuni sem til skiptanna eru á sem árangursríkastan hátt, að forgangsraða í ríkisrekstrinum með nýjum hætti, verja grunnþjónustu, auka skilvirkni í ríkisrekstri með stærri og hagkvæmari einingum, einfalda stjórnsýslu og þjónustu, endurskoða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og gera ríkiskerfið sveigjanlegra og tilbúið til að takast á við breytingar. Þá er stefnt að því að auka samstarf ráðuneyta og samvinnu ríkisaðila almennt þannig að ríkið allt, bæði einstök ráðuneyti og stofnanir, vinni saman sem ein heild.

Umbætur og endurskipulagning stjórnsýslu og opinberrar þjónustu við þær aðstæður sem nú ríkja eru mikil áskorun en jafnframt tækifæri til þess að einfalda og bæta með ýmsu móti. Endurskipulagning opinberrar þjónustu á ákveðnum sviðum er nauðsynleg og tímabær, m.a. vegna breytinga sem orðið hafa á þörfum fólks í samfélaginu, byggðaþróun og tækniþróun. Núverandi aðstæður gera það enn brýnna en ella að ráðuneyti og stofnanir endurmeti með opnum huga öll verkefni. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að breytingar sem nú verður ráðist í auki sveigjanleika í skipulagi ríkisrekstrar og gangi ekki svo nærri grunnþjónustu á ákveðnum sviðum að ekki verði unnt að byggja upp öfluga, skilvirka og nútímalega stjórnsýslu í framtíðinni.

Ljóst er að þær breytingar sem ráðast þarf í á næstu misserum eru m.a. að fækka ráðuneytum og ríkisstofnunum með sameiningum og breytingum á skipulagi. Þetta mun hafa í för með sér breytingar á núverandi vinnuaðferðum og fjölda og samsetningu starfsfólks á ákveðnum sviðum ríkisrekstrar. Því er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að allir þeir sem nú vinna hjá ríkinu sinni sömu eða sams konar störfum eftir að endurskipulagning hefur farið fram. 

Lögð er á það áhersla að við endurskipulagningu opinberrar þjónustu og stjórnsýslu sé horft til framtíðar og hugað að uppbyggingu um allt land. Í sóknaráætlun 20/20, sem nú er í mótun á vegum ríkisstjórnarinnar, er unnið að skilgreiningu samræmdrar svæða- og umdæmaskiptingar fyrir landið og á þeim grunni verður þess freistað að ná fram samþættingu ýmissa áætlana ríkisins sem snúa að uppbyggingu til framtíðar. Landinu verður skipt í 5-6 svæði og stefnumótun og áætlanagerð í ákveðnum málaflokkum munu taka mið af þeirri skiptingu. Þessi uppskipting mun einnig í sumum tilvikum hafa áhrif á uppbyggingu og framtíðarskipulag opinberrar þjónustu um allt land sem og á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Svæðaskiptingin hefur þó aðeins óbein áhrif á stjórnsýslu og þjónustu sem ekki er í eðli sínu staðbundin. Lögð verður áhersla á að einfalda framkvæmd slíkra verkefna, samræma stjórnsýslu, stækka einingar til muna og auka sveigjanleika við tilhögun þeirra. Slíkt skapar sóknarfæri fyrir byggðarlög á landsbyggðinni sem geta laðað til sín verkefni frá stærri stjórnsýslueiningum sem hægt er að sinna hvar sem er á landinu með nútímasamskiptatækni. Stjórnsýsla og þjónusta sem aftur á móti er staðbundin verður einfölduð og endurskipulögð á grundvelli nýrrar umdæmaskiptingar.

Eftirfarandi er listi yfir breytingar sem unnið er að á vegum ráðuneytanna og ákveðið hefur verið að ráðast í á næstu misserum, aðallega á árinu 2010. Listinn er ekki tæmandi en lýtur helst að breyttu skipulagi stjórnsýslu og þjónustu og sameiningum stofnana eða auknu samstarfi þeirra. Fyrirhugaðar breytingar eru komnar mislangt á veg en þær kalla á nýja hugsun, útsjónarsemi og samhent átak allra aðila. Ráðuneytin munu hafa sérstakt samráð sín á milli við framkvæmd breytinga og virkt samráð við alla hagsmunaaðila.

  1. Endurskipulagning lögregluembætta sem miðar að því að fækka og stækka umdæmin í því skyni að verja grunnþjónustu lögreglunnar og minnka yfirbyggingu. 
  2. Skipan sýslumannsembætta endurskoðuð og samhliða nýrri svæðaskiptingu verður embættum fækkað en áfram verða starfsstöðvar víðsvegar um landið.
  3. Héraðsdómstólar sameinaðir í einn.
  4. Landið gert að einu skattumdæmi. Embætti ríkisskattstjóra og skattstofur landsins sameinuð í eitt embætti. Verkefnum skattkerfisins verður áfram sinnt víðsvegar um landið.
  5. Aðgerðaáætlun um samstarf og markvissari verkaskiptingu milli heilbrigðisstofnana.
  6. Sameining átta heilbrigðisstofnana á Vesturlandi og tveggja í Fjallabyggð.
  7. Tillögur um breytingar á stjórnsýslustofnunum heilbrigðisráðuneytisins settar fram af sérstökum starfshópi sem er að störfum.
  8. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur verið endurskipulögð í nánu samstarfi við Fiskistofu sem felur í sér sparnað í mannahaldi og húsnæði.
  9. Athugun á öllum stærri stofnunum sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins undir forystu sjálfstæðs ráðgjafa, þar sem farið er yfir verkefni, mögulega skörun, breytta verkaskiptingu, aukið samstarf og hvað annað sem getur leitt til hagræðingar og/eða markvissari starfsemi.
  10. Stefnumótun í nytjaskógrækt, þar sem m.a. er metið skipulag og rekstur landshlutaverkefna í skógrækt af sérstakri nefnd.
  11. Úttekt á stofnanakerfi umhverfisráðuneytisins og tillögur um sameiningu stofnana ráðuneytisins auk þess sem skoðaðar eru hugmyndir um breytta verkaskiptingu milli stofnana ráðuneytisins og annarra stofnana.
  12. Unnið að undirbúningi sameiningar og endurskipulagningar verkefna og stofnana á sviði vinnu og velferðar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Samhliða verður starfsemi þessara stofnana á landsbyggðinni endurskipulögð þar sem jafnframt verði leitað leiða til þess að samþætta þessa starfsemi félagsþjónustu sveitarfélaga.
  13. Til skoðunar er í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að koma á sjálfstæðu gæða- og eftirlitskerfi með velferðarþjónustu.
  14. Unnið er að flutningi málefna fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
  15. Endurskipulagning samgöngustofnana á vegum samgönguráðuneytisins.
  16. Sameining slysarannsóknanefnda (flugslys, sjóslys og umferðaslys).
  17. Sameining Keflavíkurflugvallar o.hf. og Flugstoða o.hf.
  18. Endurmat á háskólakerfinu, þ.m.t. á möguleikum til aukins samstarfs eða sameiningar háskóla.
  19. Varnarmálastofnun lögð niður í núverandi mynd 2010 og verkefni hennar samþætt hlutverki annarra opinberra stofnana.

Reykjavík 28. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum