Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Forsætisráðuneytið

Hlutur sveitarfélaga á eftir að aukast

Sveitarfélög reki málefni fatlaðra- og aldraðra, framhaldsskóla og heilsugæslu

Öll sveitarfélög veiti fulla velferðarþjónustu

Fjármálareglur, hagstjórnarsamningar og mánaðarlegar hagtölur sveitarstjórna

Reglur um lántökur sveitarfélaga í erlendri mynt

Úrslit um persónukjör ráðist vel fyrir áramót

Séreignastefna sem eini valkostur er úr sögu

Stórar samgönguframkvæmdir tilbúnar til forvals og útboða

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kom víða við í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun. Hér er vakin athygli á nokkrum þáttum í ræðunni:

Flutningur verkefna

"Og hlutur sveitarfélaganna á bara eftir að aukast. Þess vegna þarf þeim að vaxa ásmegin. Verkefnisstjórn á vegum félags- og tryggingamálaráðherra vinnur til dæmis að yfirfærslu málefna fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna á árunum 2011 og 2012.

Ég tel jafnframt að þetta sé ekki endastöð hvað breytingar á verkaskiptingu varðar. Við þurfum sem fyrst að ákveða hvaða verkefni verða næst í röðinni og hvenær rétti tíminn er fyrir áframhaldandi breytingar. Ég nefni framhaldsskólann, sem sveitarfélögin sjálf hafa bryddað uppá, ég nefni heilsugæsluna og ég nefni verkefni á sviði samgöngumála."

Full velferðarþjónusta

"Það er ófært og í raun ólíðandi að einstök sveitarfélög, jafnvel þau sem vel eru sett og nýta ekki tekjustofna sína til fulls bjóði ekki uppá fullar húsaleigubætur, félagslegt húsnæði eða sérstakar húsaleigubætur og tryggi ekki lágmarks þjónustu við aldraða, fatlaða og þá sem standa höllum fæti á meðan önnur á sama svæði eiga i miklum erfiðleikum með að halda uppi lögboðnu þjónustustigi. Þannig getum við ekki hagað okkur lengur- allir verða að axla sínar byrðar. Sú þjónusta sem hér um ræðir er öðrum þræði lögbundin en mörg sveitarfélög gera betur en lög kveða á um og getur sú aðstoð ráðið úrslitum um velferð einstakra fjölskyldna."

Fjármálareglur og hagstjórnarsamningar

"Við ættum nú einnig að nýta tækifærið til þess að ljúka mótun fjármálareglna fyrir sveitarfélögin á næstu mánuðum. Við verðum að tryggja jafnvægi í rekstri sveitarfélaga yfir hagsveifluna með því að styrkja ákvæði í sveitarstjórnarlögum.

Í kjölfarið ættu ríki og sveitarfélög að gera með sér hagstjórnarsamning líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármálareglur og slíkir hagstjórnarsamningar væru öflug tæki við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir í fjármálum hins opinbera. Á sama tíma verður að bæta og styrkja efnahagslegt samráð stjórnsýslustiganna.

Við verðum að styrkja samráðsnefnd um efnahagsmál og ég bind einnig vonir við að nýtt ráðuneyti efnhags- og viðskiptamála verði mjög virkt í þessu samráði og leiði það til framtíðar. Þar sem pólitískrar stefnumótunar er þörf mun svo ráðherranefnd um efnahagsmál taka af skarið með forsvarsmönnum sveitastjórna. Til þess að slíkt samráð verði sem öflugast er þó nauðsynlegt að bæta skil á hagtölum um stöðu sveitarfélaganna. Helst þyrftu að liggja fyrir tölur um fjármál sveitarfélaganna mánaðarlega líkt og hjá ríkissjóði."

Lántaka í erlendri mynt

"Ég tel einnig nauðsynlegt að litið verði til þess hvort ekki skuli setja reglur um lántökur sveitarfélaga í erlendri mynt. Eins og við höfum öll séð getur 45% skuldsetning sveitarfélaga í erlendri mynt verið stórvarasöm, amk á meðan við nýtum krónuna sem gjaldmiðil. Skortur á samráði á þessu sviði er talinn til veikleika í okkar hagkerfi sem við þurfum að taka á. Veikleikinn er einkum talinn felast í því að rúmar heimildir eru hjá sveitarfélögum til lántöku og skuldsetningar, og að krafan um hallalausan rekstur er mjög veik. Það verður ekki hjá því komist að gera einhverjar breytingar hvað þetta varðar."

Ákvörðun um persónukjör

"Krafa almennings um aukið lýðræði og meiri áhrif kjósenda er hávær og réttmæt. Við kjörnir fulltrúar megum ekki daufheyrast við þessum kröfum fólksins. Tíminn fyrir breytingar er núna og tíminn er nægur ef viljinn fyrir hendi. Ég bendi á að nánast allar breytingar á kosningalöggjöf hér á landi hafa átt sér stað með tiltölulega skömmum fyrirvara fyrir kosningar. Sá tími sem nú er til stefnu er rúmur í þeim samanburði.

Meðal gagnrýnisradda sem heyrst hafa er að það fyrirkomulag persónukjörs sem lagt er til tryggi ekki jafna stöðu kynjanna í kosningum. Um þessar mundir er nefnd að ljúka störfum um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og verður fróðlegt að sjá hennar niðurstöður.

Við skulum hins vegar hafa í huga að núverandi fyrirkomulag kosninga tryggir ekki jafna stöðu kynjanna. Það hefur verið á ábyrgð flokkanna sjálfra að tryggja stöðu kynjanna á framboðslistum sínum. Þeirri jafnréttiskröfu hafa sumir flokkar svarað en aðrir ekki, því miður. Mín skoðun er sú að persónukjör muni bæta stöðu kvenna á framboðslistum og reynsla annarsstaðar á Norðurlöndum styður hana.

Mikilvægt er að hlusta á öll sjónarmið og rök varðandi beint persónukjör. Það verður því verkefni Alþingis að halda áfram umfjöllun um málið en ég legg alla áherslu á að það verði klárað á fyrstu mánuðum þings nú í haust þannig að ljóst verði vel fyrir áramót hvaða reglur muni gilda í sveitarstjórnarkosningunum að vori."

Samgönguframkvæmdir í útboð

"Mér finnst ánægjulegt að geta sagt frá því hér að ýmsar stórar samgönguframkvæmdir eru tilbúnar til forvals og útboða. Þar er um að ræða Suðurlandsveg frá Selfossi til Reykjavíkur, Vesturlandsveg frá Þingvallavegi að Hvalfjarðargöngum, stækkun flugstöðvar á Akureyri í framhaldi af lengingu flugbrautar þar, samgöngumiðstöð í Reykjavík og Vaðlaheiðargöng. Þá er undirbúningi lokið fyrir þrjú útboð vegna Landeyjarhafnar, byggingu á þjónustu- og ferjuhúsi, hafnargarði og skipaaðstöðu og dýpkun innsiglingarrennu. Einnig mun verða haldið áfram með áætlaðar vegaframkvæmdir víðsvegur um landið. Loks má geta að í framhaldi af farsímavæðingu er nú unnið að háhraðatengingum um land allt af fullum krafti."

Virkur leigumarkaður

"Húsnæðisöryggi fólks á ekki að verða ofurselt dutlungum markaðarins. Séreignastefnan sem nánast eini valkostur fólks hefur að mínu viti runnið sitt skeið og nýtt húsnæðiskerfi, þar sem raunverulegt val getur staðið á milli búsetuforma hlýtur að taka við.

Við þurfum að tryggja virkan leigumarkað, efla búseturéttarformið og setja bönd á markaðsöflin þegar kemur að húsnæði fólks. Ríki, sveitarfélög, hagsmunaaðilar og fjármálastofnanir þurfa að ná sátt um framtíðarfyrirkomulag í þessum efnum og ég hvet menn til að hraða þeirri vinnu sem allra mest."

 

Ræða forsætisráðherra

 

Reykjavík 1. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum