Hoppa yfir valmynd
5. október 2009 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða forsætisráðherra: Efnahagslegt sjálfstæði í húfi

Bráðavandann verður að leysa og hefur ekkert með Icesave eða AGS eða gera.

Útlitið er gott í sjávarútvegi og verð á ýmsum fiskafurðum tekið að hækka.

Í stefnuræðu á Alþingi í kvöld sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að þær sársaukafullu og harkalegu aðgerðir sem fjárlagafrumvarpið boðaði væru óhjákvæmilegar. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar væri í húfi og þar með grundvöllur þess að hér verði hægt að halda uppi nauðsynlegri velferðar- og samfélagsþjónustu á komandi árum.

Vextir næst stærsti liður fjárlaga

“Þjóðin spyr, hverjar eru þessar skuldir ríkisins? sagði forsætisráðherra og hélt áfram: “Ég skal svara því skýrt: Skuldir ríkisins munu vaxa úr rúmum 300 milljörðum króna árið 2007 í rúma 1700 milljarða árið 2010 eða um nærri eina landsframleiðslu - 1400 milljarða króna. Þar er ekki ein króna vegna Icesave-málsins. Um 350 milljarðar eru vegna halla ríkissjóðs, um 350 milljarðar vegna lána vinaþjóða til þess að styrkja gjaldeyrisforðann, um 300 milljarðar vegna endurfjármögnunar banka og fjármálafyrirtækja, um 150 milljarðar vegna gengisþróunar á eldri lánum og um 300 milljarðar vegna Seðlabanka Íslands, til að forða gjaldþroti hans. Skuld ríkisins vegna afskrifaðra lána Seðlabanka Íslands jafngildir þreföldum niðurskurði fjárlagahallans á milli áranna 2009 og 2010.

Vegna þessara vaxandi skulda er vaxtakostnaður ríkisins orðinn næst stærsti liður fjárlaga á eftir útgjöldum til félags- og tryggingamála, um 100 milljarðar króna. Þessi vaxtabyrði ríkisins mun að lokum verða stærsti útgjaldaliður fjárlaga ef ekkert er gert. Þessi bráðavandi hefur ekkert með Icesave að gera og ekkert með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að gera. Þeir sem því halda fram eru að blekkja fólk. Það er sama hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eða fer, sama hvort við borgum Icesave eða ekki.”

Ýmis jákvæð teikn á lofti

Forsætisráðherra benti á að þrátt fyrir allt væru ýmis jákvæð teikn á lofti: “Við getum fagnað því að meiri afgangur er á vöruviðskiptum við útlönd í haust en verið hefur, álverð hefur hækkað, aflaverðmæti úr sjó hefur aukist, verð ýmissa fiskafurða hefur hækkað, útlitið er gott í sjávarútvegi, tekjur af erlendum ferðamönnum hafa aukist verulega og spár OECD gera ráð fyrir að hagvöxtur aukist þegar á næsta ári og að aukning verði á ný í heimsverslun. Það er gott fyrir Íslendinga vegna þess að okkar bati verður drifinn áfram af útflutningi. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt síðastliðinn mánuð þótt dregið hafi á sama tíma verulega úr inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Velta á gjaldeyrismarkaði virðist einnig vera að aukast og uppsöfnun á gjaldeyrisinnistæðureikningum fyrirtækja í bönkunum hefur stöðvast.”

Skuldatryggingarálag heldur áfram að lækka og þess er vænst að verðabólga muni hjaðna ört í vetur og vextir lækka. Þá er ljóst að bæði hefur atvinnuleysi orðið minna en spáð var á Íslandi það sem af er og samdráttur er ekki eins mikill og óttast var.

Stefnuræða forsætisráðherra

Reykjavík 5. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum