Hoppa yfir valmynd
6. október 2009 Forsætisráðuneytið

Biðst afsökunar fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar

· Kjark og þor þarf í uppgjör og uppstokkun

· Sitja sömu viðskiptaklíkurnar enn að kjötkötlunum?

Í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttir við umræðu um efnahagshrun og endurreisn á Alþingi í dag sagðist hún telja sér sem forsætisráðherra, rétt og skylt fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar að biðja íslensku þjóðina afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda að þessu leyti í löngum aðdraganda að banka- og gjaldeyrishruni.

“Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást og það hafa efalítið verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu okkur í þessa erfiðu stöðu,” sagði forsætisráðherra og bætti við:

“Hver sem niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis verður um ábyrgð einstakra aðila blasir við að ríkisvaldið, raunar allt frá einkavæðingu bankanna 2004, brást í því verkefni að koma í veg fyrir hörmungarnar sem yfir okkur dundu eða að minnsta kosti draga verulega úr högginu. Þjóðin er í sárum, hún hefur liðið þjáningar og skaða sem enn sér ekki fyrir endann á. Þess vegna á hún heimtingu á afsökunarbeiðni. Það er síðan rannsóknaraðila og dómstóla að leggja grunn að, og sjá svo til, að þeir sem ábyrgð bera, axli hana.”

Í ræðunni sagði ráðherra einnig að menn gætu spurt sig að því í dag hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem mesta ábyrgð bera á hruninu hér á landi, og löngum aðdraganda þess, hefðu haft kjark og þor til þess að stíga þau skref í uppgjöri við fortíðinu og uppstokkun stjórnkerfisins sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur þegar tekið og boðað að verði stigin? “Ég fyrir mitt leyti leyfi mér að efast stórlega um það.”

Þá kom fram að ráðherra heyrði því miður á fólki sem skil kann á viðskiptalífinu og verðbréfaviðskiptum að ekki hafi átt sér stað nægilega miklar breytingar í bankakerfinu. Að því miður sætu sömu klíkurnar og hagsmunahóparnir enn að kjötkötlunum víða í samfélaginu. “Þetta vill ríksistjórnin sjá breytast og þetta vill almenningur sjá breytast. Ég treysti því að nýja Bankasýslan og nýju bankarnir muni vinna þannig að endurskipulagningu á íslensku atvinnulífi að þessu markmiði verði náð. Mikilvægar breytingar á lögum um starfsemi fjármálastofnana eiga einnig að styðja þá viðleytni.”

Meðfylgjandi er ræða Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra við umræðu á Alþingi um efnahagshrun og endurreisn 6. október 2009

Reykjavík 6. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum