Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir Þjóðfund

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að veita 7 milljónum króna til Þjóðfundar sem haldinn verður laugardaginn 14. nóvember næstkomandi.

Undanfarið hefur hópur fólks komið saman og unnið að undirbúningi að 1.500 manna fundi – Þjóðfundi – sem ætlað er að marka tímamót í átaki þjóðarinnar til uppbyggingar og sóknar sem byggist á sameiginlegum grunngildum hennar. Hópurinn kallar sig Mauraþúfuna og er fólk sem kemur víða að og er tengt víðtæku neti grasrótarsamtaka, stjórnmála og atvinnulífs og hefur einnig þekkingu og reynslu af framkvæmd viðburðar af því tagi sem um ræðir.
Boðað hefur verið til Þjóðfundarins laugardaginn 14. nóvember næstkomandi í Laugardalshöll. Á Þjóðfund koma 1200 Íslendingar sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Auk þessa úrtaks er 300 þátttakendum boðið á Þjóðfund frá stjórnvöldum, stjórnsýslu og helstu stofnunum, atvinnulífi og samtökum samfélagsins.
Í gögnum frá aðstandendum segir að verkefni Þjóðfundarins sé að marka nýja sýn sem samstaða sé um að verði grundvöllur framsækinnar og heilbrigðrar endurreisnar. Meginmarkmið fundarins, fyrir utan stefnumörkun, aðgerðaáætlun og aðgerðir í kjölfarið, sé að auka landsmönnum bjartsýni og von, og blása fólki í brjóst atorku og framkvæmdavilja.


    Reykjavík 6. nóvember 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum