Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið, sem var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka, var einnig lagt fram á 137. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Markmiðið er að setja almenna umgjörð um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þrátt fyrir að í nokkrum tilvikum sé gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í stjórnarskránni hafa lög um þjóðaratkvæðagreiðslur ekki verið sett áður hér á landi. Í frumvarpinu er lagt til að um framkvæmd þeirra verði sett almenn lög sem gildi hvort heldur um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur sem skylt er að halda samkvæmt stjórnarskrá eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi ákveður að efna til með samþykkt þingsályktunartillögu.

Ráðgefandi eða bindandi niðurstaða atkvæðagreiðslu

  • Ljóst er þegar stjórnarskráin mælir fyrir um að mál skuli borin undir þjóðina leiðir beint af ákvæðum hennar að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er bindandi.
  • Á hinn bóginn er ljóst að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi ákveður að efna til getur ekki verið lagalega bindandi fyrir handhafa ríkisvaldsins, enda gerir stjórnarskráin ekki ráð fyrir því að hendur löggjafans eða annarra handhafa ríkisvalds verði bundnar af slíkum atkvæðagreiðslum.
  • Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu getur því aðeins orðið ráðgefandi en engu að síður eru hún mikilvæg vísbending um þjóðarvilja varðandi tiltekið málefni sem þjóðkjörnir fulltrúar yrðu í raun að taka tillit til. Til þess að niðurstaða í slíkum atkvæðagreiðslum geti orðið lagalega skuldbindandi fyrir Alþingi þyrfti fyrst að koma til breyting á stjórnarskránni.


Helstu atriði frumvarpsins er varða kosningaframkvæmdina eru eftirfarandi

  • Lagt er til að löggjöf um atkvæðagreiðslur taki mið af því kosningakerfi sem í landinu er.
  • Lagt er til að sömu reglur um atkvæðisrétt gildi og í forsetakosningum og þar með Alþingiskosningum.
  •  Lagt er til að meirihluti greiddra atkvæða ráði úrslitum án tillits til kosningaþátttöku eða hlutfalls atkvæða af fjölda atkvæðisbærra manna.
  • Lagt er til að spurning í þjóðaratkvæðagreiðslu sé jafnan skýr og óskilyrt þannig að hægt sé að svara með ,,já” eða ,,nei.” Alþingi ákveður spurninguna, en leitar umsagnar Landskjörstjórnar um efnið.
  • Lagt er til að spurningin sé kynnt kjósendum a.m.k. mánuði áður en atkvæðagreiðsla fer fram.
  • Lagt er til að Alþingi standi jafnan fyrir víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði.
  • Lagt er til að ekki líði meira en eitt ár frá því að Alþingi ákveður að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu þar til atkvæðagreiðslan fer fram.


Í framsöguræðu sinni sagði forsætisráðherra meðal annars:

„Ekki er hægt að draga í efa pólitískt skuldbindingargildi niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi ákveður að efna til með samþykkt þingsályktunartillögu, ekki síst ef þátttaka er mikil eða niðurstaða afgerandi sé tekið mið af reynslu annarra þjóða af slíkum atkvæðagreiðslum.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að setja almenna umgjörð um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Í niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er mælt með því að ríki setji almennar reglur um framkvæmd þeirra og tilhögun frekar en að sett séu sérstök lög um þau efni í hvert skipti þegar ákveðið er að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Það tryggir gagnsæi að hafa fyrir fram settar reglur um framkvæmdina og dregur úr tortryggni á að málefnið sem slíkt hafi bein áhrif á hvernig reglur eru settar um atkvæðagreiðsluna

Samkvæmt frumvarpinu er lögunum ætlað að hafa almennt gildi og er ekki tekin nein efnisleg afstaða til þess hvert sé tilefni ákvörðunar um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram enda hefur Alþingi þar víðtækt svigrúm. Hefur almenni löggjafinn tæpast heimild til þess að setja þinginu beinar skorður í þeim efnum, til dæmis að banna að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tiltekin mál að öðru leyti en því sem hægt yrði að leiða beint af stjórnarskránni.“

Frumvarpið má sjá á vef Alþingis.


Reykjavík 12. nóvember 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum